Pólitíkin í Reykjavík hefur löngum verið einstaklega ófrjó.
Borgarstjórnin hefur skipst í minnihluta og meirihluta og milli ríkir óskaplegur garri.
Allt sem minnihlutinn segir er fjarska vitlaust í augum meirihlutans – og öfugt.
Samt eru þau í borgarstjórninni sammála um flest mál. Það hefur meira að segja ríkt góð samstaða um endalaust klúður í skipulagsmálum; þar bera allir flokkar sína ábyrgð.
Í raun hefur flokkapólitíkin verið eins og eitur í borgarstjórninni. Hún hefur líka verið eins og æfingabúðir fyrir landsmálapólitíkina. Hvað er það sem segir að Gísli Marteinn Baldursson og Hjálmar Sveinsson eigi ekki að geta unnið saman – þeir hafa nokkuð svipaðar hugmyndir um borgarskipulag?
Ekki verður heldur séð að teljandi munur sé á viðhorfum flokkanna í borginni til menntamála, velferðarmála, menningar eða tómstunda.
Með framboði Besta flokksins kviknar kannski von um að hægt verði að rífa borgarpólitíkina upp úr þessu leiðinlega fari. Menn eru farnir að spá í með hverjum Besti flokkurinn myndi meirihluta. En í því gæti einmitt falist dauði framboðsins. Miklu nær er að Besti flokkurinn beiti sér fyrir nýjum og opnari stjórnarháttum þar sem hinn flokkspólitíski garri er víðsfjarri.