Á fundi á Akureyri á laugardaginn lýsti Ólafur Reynir Guðmundsson hrikalegum skuldavanda þjóðarinnar – og nauðsyn þess að festast ekki í honum til langframa.
Þetta er stærsta verkefni sem bíður stjórnmálamanna á næstu misserum – á stuttum tíma þarf niðurskurðurinn að nema 100 milljörðum króna.
Ólafur velti því fyrir sér hvort stjórnmálamenn hefðu yfirleitt getu til að fást við þetta verkefni. Það hefur verið undarlega lítil umræða um þetta. Með almennum flötum niðurskurði verður þessu markmiði ekki náð; það verður að skera dýpra, taka á kerfinu sjálfu. Þetta væri í raun neyðarástand, sagði Ólafur, sem útheimti nokkra pólitíska samstöðu.
Ýmislegt sem hefur komið fram síðustu vikur boðar ekki gott: Skattahækkanir skila minna fé í ríkiskassann en fyrirhugað var, það eru logandi deilur innan ríkisstjórnarinnar vegna örlítilla breytinga á skipun ráðuneyta.
Ólafur setti fram ýmsar tillögur.
Hann telur ástæðu til að fækka ráðuneytum niður í fimm. Að öðrum kosti verði mjög erfitt að fækka stofnunum ríkisins – sem er nauðsynlegt. Ráðuneytin séu hvort eð er lítil, veik og óskilvirk.
Hann nefndi að rétt væri að láta stóriðjuna taka þátt í að leysa þennan vanda. Álverin hefðu sest að hérna til langs tíma. Það hefði komið í ljós að þau greiddu lágt raforkuverð. Það væri eðlilegt að ætlast til þess að þau tækju á sig einhverjar byrðar.
Hann talaði um að þyrfti að stöðva útflæði fjármagns vegna vaxtagreiðslna til krónubréfaeigenda.
Ólafur nefndi líka erlenda ferðamenn. Það er miklu ódýrara fyrir þá að ferðast um landið nú en fyrir hrun. Aukin gjaldtaka á erlenda ferðamenn getur skilað talsverðum tekjum.
Þetta eru aðeins nokkrar þeirra hugmynda sem Ólafur nefndi á góðum fundi á Akureyri.