Þetta er afskaplega skrítin frétt – um stórfelldan bókastuld úr stóru einkabókasafni.
Sá valinkunni sómamaður og forstjóri þess góða fyrirtækis Orkuveitunnar Hjörleifur Kvaran hefur þarna í frammi þungar ásakanir á hendur feðgunum Braga Kristjónssyni og Ara Gísla.
Þess er hins vegar hvergi getið hver sé þjófurinn, ekki einu sinni reynt að spá í það.
Orkuveituforstjórinn skautar framhjá þessu um leið og hann þjófkennir menn úti í bæ.
Hver er skýringin á því? Var brotist inn í safnið og bókunum stolið eða hafði einhver lykil? Ber þjófurinn skynbragð á bækur? Þekkir Hjörleifur þjófinn?
Annars hélt ég að bækur væru meira eða minna verðlausar núorðið – eða á leiðinni að verða það. Það er altént liðin tíð að fjöldi manna úti í bæ eigi stór bókasöfn. Nú er allt meira og minna einnota. Meira að segja meintum bókamanni eins og mér er sama þótt þetta sé mestallt í pappírskiljum.
Er kannski einn flötur á handritamálinu að Danir hafi verið dauðfegnir að losna við þetta drasl?