Í skrítinni bloggfærslu þar sem höfundur keppist við að gera mér upp alls kyns skoðanir og leggja margvíslega merkingu í stutta umfjöllun um gleymt skáld rekst ég á þau orð að ég hafi „borgaralegt“ viðhorf til skáldskapar.
Ég er ekki viss um að ég viti hvað þetta þýðir. Einu sinni var því að vera borgaralegur stillt upp sem andstæða þess að vera marxisti.
Svo man ég eftir Jóhanni Hjálmarssyni. Hann orti ljóðabók sem nefndist Dagbók borgaralegs skálds. Borgaralegir höfundar voru þeir sem stóðu nærri Mogganum á þeim árum. Á sama tíma taldist Thor Vilhjálmsson ekki vera borgaralegur.
Það fannst mér dálítið skrítið því Thor var ekki bara thorsari í móðurættina heldur var faðir hans forstjóri Eimskipafélagsins.
Jóhann var hins vegar kominn af alþýðufólki, starfaði á póstinum og átti örugglega ekki til neinna góðborgara að telja.