Þetta er dásamleg ljósmynd. Þarna flýgur nútíminn í líki Graf Zeppelin yfir Reykjavík sumarið 1930. Framtíðin fór reyndar í aðra átt – loftskipin reyndust ekki nógu traust. En falleg voru þau og silfurgljáandi.
Á Lækjartorgi stendur enn hús Thomsensmagasíns sem Guðjón Friðriksson segir í Reykjavíkursögu sinni að hafi verið með eindæmum glæsileg verslun upp úr aldamótum – með sérstakri deild fyrir vindla og vín. Verslunarmenningin fór illa út úr því þegar Íslendingar tóku stjórn landsins í sínar hendur; gömlu dönsku kaupmennirnir hröktust burt og allt reyrðist í höft og molbúaskap.
Það er ekki enn búið að eyðileggja Íslandsbanka gamla (nú Héraðsdóm) með því að byggja ofan á hann og ekki heldur búið að skemma húsið við hliðina á sem nú er múrhúðað og grátt.
Klukkan á Lækjartorgi er á sínum stað – en á þessum tíma var torgið enn miðdepill borgarinnar, ekki sú dapurlega auðn sem nú er.