Skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag hlýtur að rugla borgarstjórnina enn meira í ríminu. Gömlu ljótu húsin á Laugavegi hafa valdið meiriháttar flækjum í nýja meirihlutanum og borgarstjórinn sjálfur veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga.
Alls konar vitleysa hefur verið sögð eins og að þarna sé götumynd sem er svo heilleg að hún líti út eins og perlufesti. Samt er það svo að húsið Laugavegur 8 er varla nema svona 15 ára gamalt – réttnefndur steinsteypukassi.
Skoðanakönnunin leiðir í ljós að það er mikill minnihluti borgarbúa sem vill láta friða húsin. Lætin hafa hins vegar verið svo mikil – sérstaklega í Morgunblaðinu – að mátti halda að þorri Reykvíkinga væri á bandi Margrétar Sverrisdóttur, Ólafs F og Svandísar.
Flestir virðast vera á þeirri skoðun – sem oft hefur verið haldið fram á þessari síðu – að rétt sé að byggja hús sem stingi ekki of mikið í stúf við götumyndina. Að við byggingar í Miðbænum verði að hyggja vel að samræminu og fagurfræðinni, en hins vegar sé óráðlegt að líta á hús sem alltaf hafa verið léleg sem menningarverðmæti.
Því miður hefur gengið erfiðlega að framfylgja þessu – og ekki furða að viss tortryggni sé í loftinu. Hið hryllilega fíaskó við Lindargötu verður lengi í minnum haft.