Þegar ég var tólf ára var heimsmeistaraeinvígið í Laugardalshöll. Ég hélt frekar með Spassky eins og þorri þjóðarinnar – hann var hæverskt prúðmenni af þeirri tegund sem var í tísku í forsetatíð Kristjáns Eldjárns – en innst inni fannst mér Fischer samt flottari.
Reyndi meira að segja að herma eftir göngulagi Fischers sem mér fannst kæruleysislegt og flott. Frétti að Fischer drykki tómatssafa. Fékk mér svoleiðis – enn þann dag í dag drekk ég aldrei tómatssafa án þess að hugsa til Bobbys.
Ævi hans er sorgarsaga. Hann hafði snilligáfu á mjög þröngu sviði. Þegar slík snilligáfa er annars vegar er stutt í brjálsemina. Hann lokaðist smátt og smátt inni í heimi eigin ranghugmynda. Brann stutt og lýsti skært. Einvígið í Reykjavík var líka ein af helstu orrustum kalda stríðsins; Bobby Fischer Goes to War heitir ein bókin um þessa atburði. Varla hjálpaði það geðheilsunni.
Ég á eftir að sakna hans af götunum í Reykjavík. Fannst frekar vinalegt að sjá hann á ferli. Það er dapurt að hann lést úr sjúkdómi sem hefði víst mátt lækna. En svona var hann – auðvitað var ekki við því að búast að hann treysti læknum eða læknavísindum fremur en öðru.
Undir lokin þótti engum vænt um þennan mann – nema kannski Íslendingum. Allavega svona smá.