Stundum eru leigubílstjórar ágætir heimildamenn. Ég ók með bílstjóra frá Keflavíkurflugvelli fyrir nokkru. Sá sagði mér að það væri með ólíkindum hversu framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar gengju hægt. Þetta var meðan Sturla Böðvarsson var enn samgönguráðherra; bílstjórinn taldi að Sturla hefði aldrei haft neinn áhuga á þessu verki. Peningum hefði verið mjatlað í það hægt og treglega.
Sama virðist enn vera upp á teningnum á Reykjanesbraut þrátt fyrir að nýr samgönguráðherra sé tekinn við.
Pétur Gunnarsson skrifar um þetta á bloggi sínu:
„Sá frétt um slys á Reykjanesbraut við Vogaafleggjarann í dag og finnst eins og talsvert hafi verið um slys og óhöpp á brautinni undanfarið. Átti erindi á Suðurnes í gærkvöldi og vegurinn hefur klárlega ekki verið jafnhættulegur árum saman. Verktakinn gjaldþrota, framkvæmdir liggja niðri og á einum þremur stöðum er umferðinni beint milli akbrauta, – einn af þeim stöðum er einmitt á mótum Reykjanesbrautar og Vogaafleggjara.“
Maður gæti jafnvel sett saman samsæriskenningu um þetta. Vilja samgönguráðherrarnir kannski fresta því í lengstu lög að menn komist að því hversu ógnarfljótir þeir gætu verið að aka til Keflavíkur ef öll brautin er tvöfölduð?