Á Barbados eru örlítið færri íbúar en á Íslandi, sirka 270 þúsund. Miðað við Barbados er Ísland ofuraktívt þjóðélag. Reyndar verð ég að viðurkenna að þetta er eitt af því sem ég er stoltur af á Íslandi – það er varla til annað svo smátt samfélag fólks í heiminum þar sem er jafnmikið á seyði.
Það er kannski ekki eðlilegt að bera okkur saman við hitabeltiseyju eins og Barbados þar sem lífið er afslappað. Nær er kannski að horfa til Lúxemborgar, moldríks samfélags þar sem býr álíka margt fólk og á Íslandi. Í Lúxemborg er ekki neitt nema skúffufyrirtæki og Moselvín; Lúxemborgarar verða að fara burt ef þeir ætla að mennta sig eða njóta menningar.
Íslendingar hafa löngum verið mjög metnaðarfullir í menningarmálum. En á ýmsum öðrum sviðum þjóðlífsins ríkti hér talsverð deyfð; við létum okkur lynda að búa við alls kyns höft, viðskiptablokkir sem nefndust Kolkrabbi og Smokkfiskur skiptu viðskiptalífinu á milli sín, bankarnir voru í ríkiseigu og stóðu í undarlegri skömmtun á peningum. Það er fáránlegt til þess að hugsa að bankarnir skyldu ekki vera einkavæddir löngu fyrr.
Það má líkja þessu við tölvuleik. Þá má segja að við höfum færst upp um mörg borð. Slíkur er atgangurinn. Kannski er æsingurinn of mikill. Ég held samt að samfélagið sé meira spennandi fyrir vikið.
Stundum verður þetta raunar dálítið spaugilegt. Við höldum til dæmis úti jafnmörgum fjölmiðlum og hjá milljónaþjóðum. Á Barbados þar sem ég dvaldi í tíu daga eru að koma kosningar. Þær hafa sennilega álíka mikla heimssögulega þýðingu og kosningar á Íslandi.
Á leiðinni heim les maður svo forsíðufréttir blaða um endalausar deilur vegna tveggja húskofa og um valdabaráttu í Öryrkjabandalaginu. Vegna þess hafði meira að segja verið boðað til sérstaks blaðamannafundar á glæsihóteli.
Hvernig er með skátahreyfinguna, Lions eða ÍR – skyldi vera einhver valdabarátta þar sem er ófjallað um?