Sir Edmund Hillary var eitt af átrúnaðargoðum mínum í æsku. Ég hef haft áhuga á sögum af heimskautaferðum og fjallgöngum allar götur síðan ég las bókina Á hæsta tindi jarðar sem Menningarsjóður gaf út af miklum myndarskap á sjötta áratugnum.
Áhugi minn á þessu er þó einungis fræðilegur; mér kæmi ekki til hugar að fara í snjógalla og út á heimskautaísinn eða upp á einhvern ókleifan fjallgarð.
En ég drakk semsagt í mig þessa bók sem fjallar um leiðangurinn á Everest 1953. Hann var undir stjórn Sir Johns Hunt, en lauk með því að Hillary og sherpinn Tenzing Norgay komust á tindinn.
Reyndar hélt ég meira upp á Tenzing en Hillary.
Þeir gerðu með sér heiðursmannasamkomulag um að ræða ekki hver hefði gengið á undan upp á tindinn. Seinnameir varð það víst mjög þreytandi þegar blaðamenn voru eilíflega að spyrja um þetta atriði.
Nú heyrist manni á fréttum að blindir menn og jafnvel naktir gangi upp á Everesttind. En á sínum tíma var þetta mikið afrek sem vakti heimsathygli og varð mörgum innblástur.