fbpx
Mánudagur 01.september 2025
Eyjan

Stjórnarandstaðan á Morgunblaðinu

Egill Helgason
Sunnudaginn 6. janúar 2008 12:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

styrmir.jpg

Það var ein helsta niðurstaðan í samræðum Össurar Skarphéðinssonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í áramótasilfri mínu að einna hörðustu stjórnarandstöðuna væri að finna á Morgunblaðinu. Þetta er svosem löngu orðið dagljóst – þau Styrmi og Agnesi virðist vera sérstaklega uppsigað við ríkisstjórn þar sem Samfylkingin er innanborðs.

En á sama tíma má finna í skrifum þeirra mikla umhyggju í garð Vinstri grænna.

Enn er hnykkt á þessu í Reykjavíkurbréfi í dag en þar leggur Styrmir út af þeim að mörgu leyti lofsverðu orðum Geirs Haarde að hann sé ekki í stjórnmálum til að „koma öðrum stjórnmálaforingjum fyrir pólitískt kattarnef“.

Styrmir viðurkennir að þetta sé vel sagt og drengilega hjá Geir, en þegar maður les áfram sér maður að hann er á allt öðru máli. Ritstjórinn tekur hálfpartinn undir þau orð Guðna Ágústssonar að deyfð ríki yfir forystu Sjálfstæðisflokksins – ekki er heldur hægt að lesa annað úr greininni en það sé skoðun hans að stjórnmál án „illvígra átaka“ séu óhugsandi.

Styrmir boðar samstarf Sjálfstæðisflokks og VG, bæði í borgarstjórn og ríkisstjórn:

„Þegar horft er til málefnanna eingöngu er ljóst að meiri samstaða er milli sex borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa Vinstri grænna en annarra hópa innan borgarstjórnarinnar. Það er því ljóst að á málefnalegum forsendum væri auðvelt að mynda meirihluta milli þessara tveggja flokka í borgarstjórn Reykjavíkur með sama hætti og brezka tímaritið, sem vitnað var til, telur að geti gerzt í borgarstjórn Hamborgar.

Myndun slíks meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur með Svandísi Svavarsdóttur sem borgarstjóra mundi hafa tvenns konar þýðingu. Í fyrsta lagi mundi reyna á hvernig samstarf gengi á milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, sem vissulega væri forvitnilegt. Í öðru lagi gæti slíkt samstarf hugsanlega vísað veginn til samstarfs á landsvísu eins og talað er um að gæti gerzt í Þýzkalandi.

En jafnframt kæmi líka í ljós, hvort Vinstri grænir hafa yfirleitt kjark til þess að taka á sig ábyrgð á stjórn, hvort sem er í sveitarstjórn eða á landsvísu. Innan raða Vinstri grænna gætir óróa vegna þess, að þeir fái ekki tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Þess vegna er þeim mun furðulegra að þeir skuli ekki grípa það tækifæri, sem þeim augljóslega gefst í borgarstjórn Reykjavíkur.

Vinstri grænir eiga ekki að líta á slíka meirihlutamyndun sem einangrað fyrirbæri heldur sem aðdraganda að hugsanlegu samstarfi á landsvísu við Sjálfstæðisflokkinn.

Þýðing meirihlutasamstarfs með Vinstri grænum í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir Sjálfstæðisflokkinn er augljóslega frá „strategísku“ sjónarmiði, að flokkurinn mundi í einu vetfangi losa sig út úr þeirri stöðu, að eiga engra annarra kosta völ en samstarfs við Samfylkingu, sem er auðvitað óþolandi staða fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þar með hefði svið stjórnmálanna gjörbreytzt. Samstarf á milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í borgarstjórn þýddi að samstarf þessara tveggja flokka á landsvísu væri hugsanlegt. Samfylkingin væri ekki lengur í þeirri stöðu að geta deilt og drottnað. Eins og mál standa nú þarf Ingibjörg Sólrún ekki einu sinni að benda á, að hún eigi sem stendur einkarétt á samstarfi við Framsókn og Vinstri græna. Það blasir við að öllu óbreyttu.

Lykillinn að framtíðarstöðu Sjálfstæðisflokksins í íslenzkum stjórnmálum er því um þessar mundir í borgarstjórn Reykjavíkur.

Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir eiga um margt sameiginlegra hagsmuna að gæta. Vinstri grænir hafa verið í pólitískri einangrun en þurfa ekki að vera það lengur. Sjálfstæðisflokkurinn er í þeirri hættu að verða fangi Samfylkingar í ríkisstjórn en þarf ekki að vera það.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Hraðinn og nálægðin við viðskiptavininn er það sem heillar við smásöluna

Hraðinn og nálægðin við viðskiptavininn er það sem heillar við smásöluna