
Við fjölskyldan höfum verið að styðja 7 ára strák sem heitir Wycliff til mennta. Hann á heima í fátækrahverfi í Nairobi í Kenýa – einu versta fátækrahverfi í heimi.
Í dag barst okkur svohljóðandi bréf frá ABC-hjálparstarfi. Þetta er ekki gott:
Eins og þið eflaust vitið ríkir skelfilegt ástand í Nairobi í Kenya þar sem eitt ABC heimilið okkar er staðsett. Í fátækrahverfunum hefur fjöldi húsa verið brenndur og fólk misst allt sitt, fólk hefur verið innilokað á heimilum sínum matarlaust í marga daga, verslanir eru lokaðar og þær sem opna selja mat á uppsprengdu verði. Fjöldi kvenna með börn hafa leitað til ABC heimilisins eftir hjálp og er heimilið að fyllast af flóttafólki sem misst hefur heimili sín. Starfsfólk ABC reynir sitt besta til að hjálpa þessu fólki. Þórunn og Samuel komu heim frá Tansaníu í gær með fullan bíl af mat en þar sem þau gefa frá sér stóran hluta til matarlausra í fátækrahverfunum dugar hann skammt. Hún biður okkur að senda þeim pening til að kaupa mat til að geta hjálpað fleirum.
Börnin á heimilinu hafa það gott þó þau séu hrædd. Starfsmennirnir hafa reynt að heimsækja fjölskyldur barnanna okkar sem búa í fátækrahverfunum til að færa þeim mat og aðstoða á annan hátt.
ABC barnahjálp hefur ekki neinn varasjóð til að mæta svona ástandi og datt okkur því í hug að leita til ykkur um aðstoð. Þeir sem vilja hjálpa okkar mega gjarnan leggja pening inn á reikning ABC heimilisins í Kenya sem er í banka 1155-15-41415 kt. 6906881589.