Ágæt grein hjá Andrési Magnússyni þar sem hann bendir á að Benazir Bhutto hafi verið bæði þjófótt og spillt. Það er of simpilt að tala um hana sem stórbrotinn stjórnmálamann.
Saga Pakistans er samfelld hörmungasaga. Breska heimsveldinu lá á að komast frá Indlandi og á síðustu stundu var ákveðið að skipta Indlandsskaga í Indland annars vegar og Pakistan hins vegar. Fólksflutningarnir og morðin sem þessu fylgdu eru einhver ljótasta saga tuttugustu – og er þó af nógu að taka.
Svo braust út stríð 1970 þegar Austur-Pakistan sagði skilið við Pakistan og varð ríkið Bangla Desh. Talið er að meira en milljón manns hafi dáið af völdum stríðsins.
Ali Bhutto, faðir Benazir, var hengdur, Zia-ul-Haq dó í dularfullu flugslysi og nú er búið að sprengja Benazir. Með reglulegu millibili var hún landflótta vegna spillingar og hið sama má segja um keppinaut hennar Nawaz Sharif.
Glundroðinn er algjör. Kunna menn einhverja aðra lausn á þessu en að reyna að halda Musharraf hershöfðingja við völd?
En um leið er það auðvitað partur af vandamálinu.
Þetta er sjötta fjölmennasta ríki í heimi – og það á kjarnorkuvopn.