Á tímum einangrunar og sóttkvíar virðist nú sem menn hafi mismikinn frítíma á höndum sér sem þeir reyna ólmir að fylla upp í með ýmsum leiðum. Sumir gerast sjálfskipaðir sérfræðingar í ónæmis- og faraldsfræði, aðrir taka húsið sitt í gegn og enn aðrir endurskapa meistaraverk listasögunnar með ljósmyndatæknina að vopni.
Hollenska Instagramsíðan @tussenkunstenquarantaine eða á íslensku: „milli listar og sóttkvíar“, hefur heldur betur tekið vaxtarkipp síðan eigandi hennar sett inn fyrsta framlagið fyrir um tveimur vikum síðan. Nú hafa hartnær 400 verk fylgt í kjölfarið og þau eru hvert öðru betri!
Reglurnar eru einfaldar:
Ert þú að vinna heima? Þrengja veggirnir að þér? Hér er heimagerð list.
Fyrir þá sem eru ekki á Instagram. Á facebooksíðu Museum News má fletta í gegnum fjölda ljósmynda sem safnið hefur tekið saman og endurbirt á veggnum sínum.
Stúlkan með perlueyrnalokkinn er að vanda vinsælt efni til þess að vinna með.
Vertumnus eftir ítalska málarann Giuseppe Arcimboldo er einnig vinsælt viðfangsefni. Spurning hvort einhver leggi í að búa til útgáfu eingöngu með íslenskum afurðum?
Bananinn hans Maurizio Cattelan komst í fréttirnar fyrir stuttu, en ein útgáfa verksins seldist á 120,000 Bandaríkjadollara. Spurning hvert verðgildi klósettrúllunnar sé í dag?
Primavera eftir endurreisnarmálarann Sandro Botticelli hefur hér verið kippt harkalega inn í nútímann þar sem dísir dansa í sóttvarnargöllum og Merkúríus sótthreinsar andrúmsloftið.
Þetta er að sjálfsögðu engin pípa. En maður minn, sjáið þessa fótleggi!
Það er víst mikið rifist um hvaða gæludýr þetta sé á myndinni til hægri, en í nútímaútgáfunni er fimlega komist framhjá þeim umræðum.