fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024

Margrét Edda steig nokkrum sinnum á dag á vigtina: „Í dag er ég þyngri en mikið hamingjusamari“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 13. september 2019 22:00

Margrét Edda er 12 kg þyngri á myndinni til hægri en þessari til vinstri. Hún er líka þúsund sinnum hamingjusamari.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margrét Edda Arnardóttir er 22 ára útskrifaður ÍAK einkaþjálfari. Hún vinnur við einkaþjálfun og er nýbyrjuð með sína eigin hóptíma sem kallast SHAPE UP.

En Margrét Edda hefur ekki alltaf verið örugg í eigin skinni og átt heilbrigt samband við mat og hreyfingu.

„Ég var vön að æfa af röngum forsendum. Ég byrjaði að æfa með því hugarfari að léttast og markmiðið var að líta út eins og fitness fyrirsæta. Ég steig á vigtina hátt í 1-4 sinnum á dag og var með þráhyggju. Ég hreyfði mig á hverjum degi, stundum tvisvar á dag og borðaði lítið,“ segir Margrét Edda.

„Ég var með brenglaða sjálfsmynd og einangraði mig frá öllum vinum mínum. Ég var að glíma við mjög erfitt tímabil. En ég áttaði mig á því sem betur fer og byrjaði að vinna í sjálfri mér. Í dag er ég þyngri en mikið hamingjusamari.“

Margrét Edda.

Byrjaði þegar hún var unglingur

Margréti Eddu byrjaði að líða illa í grunnskóla með útlit sitt. „Ég var með litla sjálfsmynd. Mér fannst ég aldrei nógu flott. Ég byrjaði að borða minna og ef ég „svindlaði,“ sem sagt borðaði eitthvað sem ég taldi vera „óhollt“ þá fór ég út að hlaupa því ég þurfti að brenna þessum auka kaloríum,“ segir Margrét Edda.

„Það var samt ekki fyrr en ég var 17 ára og byrjaði í ræktinni þegar ég byrjaði að vigta mig daglega. Andlega heilsan mín stjórnaðist af vigtinni. Ég get trúað því að ég hafi borið mig allt of mikið saman við aðrar stelpur. Markmiðið mitt var að fara niður í 59 kg, þar sem mér fannst það flott að fara undir 60 kg,“ segir Margrét Edda en 59 kg er mjög lítið fyrir manneskju eins og Margréti Eddu sem er 174 cm á hæð.

Orkulaus og leið illa

Þrátt fyrir að vera aðeins kílógrammi frá draumaþyngd sinni leið Margréti Eddu ekki betur.

„Ég var orðin 60 kg og var alltaf stígandi á vigtina. Mér leið ekkert betur með sjálfa mig heldur en áður. Ég áttaði mig á því að það sem ég var að gera var að brjóta mig niður,“ segir hún.

„Ég var orkulaus, leið illa og sá ekki fyrir mér að ég myndi vera hamingjusöm með þessu áframhaldi. Ég þráði ekkert heitar en að líða vel og var staðráðin að ég yrði að breyta einhverju.“

Á þessum tíma var hún einnig búin að átta sig á mynstrinu með mataræði sitt. „Ég átti ekki heilbrigt samband við mat. Ég borðaði lítið sem ekkert sex daga vikunnar og átti einn nammidag í viku. Þá borðaði ég bókstaflega allt sem mig langaði í þann dag. Líkaminn var greinilega kominn í ákveðið „hungrað ástand“ (e. starvation mode) og var að bæta upp tapaðar kaloríur,“ segir Margrét Edda.

https://www.instagram.com/p/BoCG-C5A7j3/

Hætti að stíga á vigtina

Fyrsta skrefið í átt að bata fyrir Margréti Eddu var að segja skilið við vigtina.

„Ég hætti að stíga á vigtina og vá hvað það gerði mikið fyrir mig. Ég ákvað að nú skyldi ég borða til að næra mig og það var ekkert á bannlista. Ég vildi hætta að fá samviskubit eftir hverja „svindlmáltíð“. Ef mig langaði í nammi þá fékk ég mér nammi,“ segir Margrét Edda.

„Mér finnst að maður eigi að geta notið þess að borða en ekki að maður eigi að vera með brjálað samviskubit eftir hverja máltíð. Borða til að næra sig er lykillinn.“

Næsta skref  var að setja sér ný markmið

„Ég byrjaði líka að setja mér markmið sem sneru að hreyfingu og æfingum, til dæmis að ná að lyfta 100 kg í réttstöðulyftu, ná að gera eina upphífingu, hlaupa 5 km á X tíma og svo framvegis,“ segir Margrét Edda.

„Ég hlustaði á allskonar uppbyggjandi leiðbeinandi hugleiðslu (e. guided meditation) á YouTube. Ég fór að tala við sjálfa mig eins og ég myndi tala við bestu vinkonu mína. Og ef það koma upp einhverjar neikvæðar hugsanir þá sný ég því við og byrja telja upp jákvæða hluti , sérstaklega hluti sem ég er þakklát fyrir.“

Margrét Edda sótti einnig Dale Carnegie námskeið og segir hún það hafa hjálpað henni að gera hluti sem eru út fyrir þægindarammann hennar.

Margrét Edda er 12 kg þyngri á myndinni til hægri en þessari til vinstri. Hún er líka þúsund sinnum hamingjusamari.

Hvaða ráð gefurðu öðrum í sömu stöðu?

  • Hættu að stíga á vigtina.
  • Hættu að hugsa um að grennast, kílóin segja ekkert um manneskjuna sem þú hefur að geyma.
  • Byrjaðu að elska þig sjálfa alveg nákvæmlega eins og þú ert.
  • ALLTAF vera samkvæm sjálfri þér.
  • Borðaðu til að næra líkamann, það er ótrúlegt hvað andleg heilsa helst í hendur við heilbrigt mataræði.
  • Settu þér æfingarleg markmið í ræktinni og vinndu þétt að þeim.
  • Talaðu við sjálfa þig í hugsunum þínum eins og þú myndir tala við manneskju sem þér þykir vænt um.
  • Gerðu hluti sem eru út fyrir þægindarammann.
  • Sæktu í að vera hamingjusöm og hlustaðu alltaf á hjarta þitt.
  • Hættum að bera okkur saman við aðra.

https://www.instagram.com/p/Bz5IZ8sgmuH/

 „Þyngri en hamingjusamari“ er ekki eitthvað sem við heyrum oft í dag – er eitthvað sem samfélagið getur gert til að sporna gegn brenglaðri sjálfsímynd fólks, þá sérstaklega kvenna?

„Hættum að sýna glansmyndir á samfélagsmiðlum. Virðum líkamann okkar alveg eins og hann á skilið, hann er sá eini sem við munum eiga. Við erum öll fullkomlega ófullkominn og lærum að elska okkur sjálf,“ segir Margrét Edda.

„Hættum að dæma fólkið í kringum okkur og berum virðingu fyrir náunganum. Við erum öll mismunandi og fegurðin kemur að innan. Mín heitasta ósk er að allir myndu læra að elska sjálfa sig nákvæmlega eins og þeir eru og við hættum að miða okkur við aðra. Eilífur samanburður gerir okkur óhamingjusöm. Samgleðjumst fólki þegar vel gengur og hættum að vera öfundsjúk. Þessi setning situr fast í mér: „Þú getur ekki breytt öðrum, en þú getur breytt sjálfri þér, svo vertu gott fordæmi fyrir aðra.,““ segir Margrét Edda og beinir lokaorðum sínum til kvenna:

„Til allra kvenna: Þið eruð gullfallegar alveg eins og þið eruð, þið þurfið ekki að vera 10 kg léttari til að verða hamingjusamar, hættið að bera ykkur saman við aðrar konur. Berum virðingu fyrir hvor annarri. Konur geta verið konum bestar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Axel fer yfir ákvörðun sína – „Ég myndi ekki velja þann stað með sjö mánaða gamalt barn“

Axel fer yfir ákvörðun sína – „Ég myndi ekki velja þann stað með sjö mánaða gamalt barn“
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 klukkutímum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Stjarnan hafði betur gegn Val – Bjarni Mark fékk heimskulegt rautt spjald

Stjarnan hafði betur gegn Val – Bjarni Mark fékk heimskulegt rautt spjald
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Svona var byrjunarliðið þegar Manchester United mætti Coventry síðast

Svona var byrjunarliðið þegar Manchester United mætti Coventry síðast

Tarot Spil

Veldu þér spil og sjáðu spádóm þinn.