Það var líf og fjör í þætti Dr. Football í dag þar sem Kjartan Henry Finnbogason, aðstoðarþjálfari FH, og Andri Már Eggertsson, oftast kallaður Nabblinn, voru í heimsókn.
Það var farið yfir félagaskiptafréttir í íslenska boltanum og í kjölfar umræðu um Benedikt Warén, sem Stjarnan var að kaupa af Vestra á vel yfir 10 milljónir króna, fleygði Andri Már fram kjaftasögu.
„Það eru sögur af því að Vestri ætli að nota peninginn sem þeir fá fyrir Benedikt Warén og gera tilboð í Finn Tómas (Pálmason) hjá KR. KR vill samt annan hafsent áður en þeir láta hann fara,“ sagði hann.
Kjartan Henry, sem er auðvitað goðsögn hjá KR og spilaði með miðverðinum í Vesturbænum, hafði enga trú á þessu.
„Þetta er bull. Finnur Tómas getur ekki búið fyrir vestan. Gleymdu því,“ sagði hann og viðstaddir skelltu upp úr.