
Eddie Nketiah er að ganga í raðir Crystal Palace frá Arsenal. Samkvæmt helstu miðlum hafa Skytturnar samþykkt tilboð upp á 25 milljónir punda. Gæti það hækkað í 30 milljónir punda síðar meir.
Framherjinn hefur verið orðaður burt frá Arsenal í allt sumar, til að mynda við Marseille og Nottingham Forest en nú er ljóst að hann verður áfram í London og gengur í raðir Palace. Sjálfur er hann búinn að semja við félagið um sín kjör.
Hinn 25 ára gamli Nketiah er uppalinn hjá Arsenal og hefur leikið með félaginu alla tíð, fyrir utan stutta lánsdvöl hjá Leeds árið 2019. Hann er hins vegar ekki í áætlunum Mikel Arteta og fer því annað.