
HK vann dramatískan 3-2 sigur á KR í fallbaráttuslag í Bestu deild karla í gær. Umdeilt atvik átti sér stað seint í leiknum.
KR komst í 0-2 í fyrri hálfleik með mörkum frá Benóný Breka Andréssyni og Aroni Sigurðarsyni en HK jafnaði í þeim seinni með mörkum Eiðs Gauta Sæbjörnssonar.
HK skoraði sigurmark leiksins á 85. mínútu, en þar var að verki Atli Þór Jónasson. Skömmu áður hafði KR þó komið boltanum í netið en markið var dæmt af.
Atli Arnarsson setti boltann þar í eigið net en var það metið svo að Atli Sigurjónsson hafi gerst brotlegur í aðdragandanum.
KR-ingar mótmæltu dómnum harðlega og frá nýju sjónarhorni séð má svo sannarlega segja að hann hafi verið umdeildur.
Um var að ræða þýðingarmikinn leik í botnbaráttunni. KR er í níunda sæti deildarinnar með 18 stig en HK er í því ellefta með stigi minna.
Atvikið frá hinu nýja sjónarhorni má sjá hér að neðan.