Gengið hefur verið frá ráðningu Benedikts Rúnars Guðmundssonar í starf þjálfara meistaraflokks Tindastóls í körfuknattleik karla. Tekur hann við keflinu af þeim Svavari Atla Birgissyni og Helga Frey Margeirssyni, sem tóku tímabundið við þjálfun liðsins þegar Pavel Ermolinskij forfallaðist vegna veikinda í mars.
Benedikt á að baki langan og farsælan þjálfaraferil. Hann hefur meðal annars unnið með meistaraflokkum Fjölnis, Grindavíkur, KR, Þórs Akureyri, Þórs Þorlákshöfn og nú síðast með liði Njarðvíkur. Á ferlinum hefur hann unnið marga Íslands- og bikarmeistaratitla bæði með karla- og kvennaliðum. Benedikt hefur jafnframt þjálfað fjölmarga yngri flokka og er um þessar mundir þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta.
„Það er mikið fagnaðarefni að fá Benedikt til starfa. Hann hefur margsannað hæfni sína á löngum þjálfaraferli og við erum ekki í vafa um að sú langa reynsla sem hann hefur í farteskinu muni nýtast okkur vel. Tindastóll hefur mikinn metnað til þess að vera í allra fremstu röð og Benedikt verður drjúgur liðsauki í þeim efnum,“ segir Dagur Baldvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls.
„Ég er ofboðslega spenntur fyrir þessu verkefni og hlakka til til að vinna með metnaðarfullri stjórn, sterkum leikmönnum og stuðningsfólki sem hefur tekið allt sitt framlag á annað level hér á landi. Ástríðan sem heimamenn hafa fyrir körfubolta er sú mesta á landinu og ég mun gera mitt allra besta til að móta lið sem Skagfirðingar geta verið stoltir af, segir Benedikt.
Körfuknattleiksdeild Tindastóls býður Benedikt velkominn til krefjandi starfa sinna á Sauðárkróki og þakkar um leið fráfarandi þjálfara sínum, Pavel Ermolinskij fyrir frábært starf. Undir hans stjórn vann Tindastóll sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil og er honum og fjölskyldu hans óskað velfarnaðar í nýjum viðfangsefnum þegar þau yfirgefa Sauðárkrók. Svavari Atla og Helga Frey er einnig þakkað fyrir þeirra dýrmæta framlag til meistaraflokksins síðustu vikur og mánuði