Þorgerður skrifar aðsenda grein um málefni Rússlands og NATO í Morgunblaðið í dag þar sem hún hvetur til þess að farið verði í endurmat á stöðu Íslands á þessum viðsjárverðu tímum.
„Á sama tíma og Donald Trump er upptekinn við að grafa undan Nató halda Rússar áfram myrkraverkum sínum í Úkraínu. Samhliða þessu senda Rússar ýmis önnur ógnandi skilaboð sem undirstrika andúð þeirra á frelsi, mannréttindum og lýðræði. Í hringiðu þessa miskunnarleysis þeirra er séð til þess að Navalní, helsti andófsmaður Putíns, er drepinn,“ segir Þorgerður og nefnir fleiri atriði máli sínu til stuðnings, til dæmis handtökuskipun Rússa á Kaju Kallas forsætisráðherra Eistlands. Allt skuli gert til að ýta undir ótta og glundroða innan Evrópu.
„Þeim sem standa uppi í hárinu á Putín er ógnað og hótað. Og þaðan af verra. En við þessu hafa nágrannaríki Rússa, eins og Eystrasaltsríkin, varað í áraraðir.“
Þorgerður bendir á að Viðreisn hafi strax í upphafi innrásar Rússa í Úkraínu lagt til að við mótuðum varnarstefnu. Flestar af okkar nágrannaþjóðum hafi farið í slíkt endurmat á vörnum og öryggi. Segir Þorgerður að stjórnarflokkarnir hafi verið tregir og ekki talið ástæðu til.
„Þegar yfirlýsingar Trumps verða nú digurbarkalegri gagnvart Nató er það ógn við öryggi okkar. Hann telur enga ástæðu til að virða grunnreglu Natósáttmálans; að árás á eitt Natóríki jafngildi árás á þau öll. Og ógnin verður enn verri ef þessi maður verður Bandaríkjaforseti á ný. Það er hætt við því.“
Þorgerður segir að Íslendingar ættu auðvitað að koma skýrum skilaboðum til Rússa og mótmæla harðlega viðurstyggilegri meðferð þeirra á Navalní.
„Og við eigum líka að koma á framfæri mótmælum okkar gegn þeirri handtökuskipun sem þeir hafa gefið út á hendur lýðræðislega kjörnum ráðherrum okkar vinaþjóðar.“
Þorgerður segir ekki síður mikilvægt að fara í endurmat á stöðu Íslands á þessum breyttu tímum.
„Við hljótum að spyrja okkur meðal annars hvort við getum raunverulega treyst á tvíhliða varnarsamning okkar við Bandaríkin. Sér í lagi ef Trump verður forseti, með þau viðhorf sem hann hefur. Og hvernig mun Nató þá þróast? Nýleg framganga fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hlýtur einnig að vekja okkur til umhugsunar þegar kemur að því að verja frelsi og lýðræði vinaþjóða. Þetta allt þarf að fara yfir. Það hlýtur í öllu falli að vera til gaumgæfilegrar skoðunar hvaða sviðsmyndir blasa við okkur Íslendingum hvað viðkemur vörnum og öryggi. Þetta vil ég fara yfir í utanríkismálanefnd,“ segir Þorgerður og bætir við að við eigum að nýta fullveldi okkar og rödd á alþjóðavísu.
„Það gerum við best með dyggum stuðningi og fullri þátttöku í vestrænu samstarfi. Hvort sem það er á vegum Nató, ESB eða Norðurlandanna. Á öllum þeim vígstöðvum þurfum við að dýpka samstarfið. En við þurfum auðvitað líka að vinna okkar heimavinnu. Einfeldni verður þá að vera ýtt út af borðinu. Í mínum huga er nauðsynlegt að Evrópa standi enn frekar saman til að verja frið, frelsi og okkar dýrmæta lýðræði. Á endanum stöndum við frammi fyrir spurningunni: Í hvaða liði viljum við vera?“