Arsenal hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem það kemur fram að félagið ætli sér ekki að taka þátt í Ofurdeildinni sem er aftur mætt á kortið. Nú er Liverpool eina félagið af svokölluðu „topp sex“ á Englandi sem ekki hafa gefið út slíka yfirlýsingu.
Dómstóll í Evrópu úrskurðaði í gær að FIFA og UEFA hafi brotið lög og reglur um samkeppni þegar þeir brugðust við Ofurdeildinni árið 2021 og að samböndin mættu lagalega séð ekki koma í veg fyrir stofnun keppninnar.
Tólf af stærstu félögum Evrópu ætluðu sér að stofna Ofurdeildina og skilja sig frá Evrópukeppnum UEFA. Vakti þetta hörð viðbrögð en þessi niðurstaða æðsta dómstóls Evrópu vekur athygli.
Nú hafa þeir sem koma að Ofurdeildinni sagt frá því að þau vilji keyra planið áfram og þar á meðal er Real Madrid sem hefur mikinn áhuga á að deildin verði stofnuð.