Miðlarnir byggja þetta á nýjum bandarískum leyniþjónustuskýrslum sem bandaríska þingið hefur fengið. Hafa fjölmiðlarnir séð þessar skýrslur hjá ónafngreindum heimildarmönnum.
Ef þessi tala er rétt þá svarar þetta til þess að 87% af heildarmannafla rússneska landhersins fyrir stríð hafi fallið eða særst.
Í skýrslunum kemur fram að á síðustu tveimur mánuðum hafi Rússar misst 13.000 hermenn í orustunni um Avdiivka.
Rússar hafa ekki tjáð sig um þessar tölur og almennt séð er erfitt að segja til um hversu mikið mannfall beggja herja er.
Allt frá upphafi stríðsins hafa Úkraínumenn gert mikið af því að birta tölur um tap Rússa. Efast má um áreiðanleika þeirra talna en þó er vitað að Rússar hafa misst mikinn fjölda hermanna. Þetta fæst staðfest við að skoða myndir og myndbönd frá vígvellinum.
En það er ekki bara fjallað um mannfall rússneska hersins í skýrslum leyniþjónustustofnananna því einnig er fjallað um hversu mikið tjón hefur orðið á hergögnum þeirra. Þeir eru sagðir hafa misst 2.200 nútímalega skriðdreka en það eru tveir þriðju hlutar þeirra skriðdreka sem Rússar höfðu til umráða fyrir stríð.
Í skýrslunni kemur fram að síðasta árið hafi Rússar misst rúmlega fjórðung þeirra hergagna sem landher þeirra hafði til umráða fyrir stríð. Þeir hafa brugðist við þessu með því að senda hermenn á vígvöllinn útbúna með gömlum búnaði. Wall Street Journal segir að til að mæta mannfallinu hafi Rússar kallað um 300.000 menn til herþjónustu síðan í september á síðasta ári.
Í skýrslunum kemur fram að manntjón rússneska hersins sem og tap og tjón á hergögnum þýði að herinn hafi verið kýldur 15 ár aftur í tímann eða til þess tíma þegar hafist var handa við að nútímavæða hann.