Um 180 manna hópur Venesúelabúa sem fóru í sjálfviljugri för frá Íslandi til heimalandsins í dag eru nú frjálsir ferða sinna og búnir að fá vegabréfin sín aftur.
Mbl.is greinir frá þessu og ræðir við Guðrúnu Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra.
„Í fyrstu var fólk frelsissvipt en við fengum síðan upplýsingar um það frá stjórnvöldum eftir óformlegum leiðum að allir séu orðnir frjálsir ferða sinna og hafi verið það eftir sólarhring. Að þetta hafi verið skráningarform hjá venesúelskum stjórnvöldum,” segir Guðrún, og ennfremur:
„Við höfum fengið upplýsingar innan hópsins að allir séu með vegabréfin sín. Við þurfum vitaskuld að staðreyna það sem þarna gerðist og fá nánari upplýsingar innan úr hópnum sem þarna var.“
Fjölmiðill í Venesúela greindi frá því í gær að fólkið hefði verið handtekið, eigur þess gerðar upptækar og það látið skrifa undir yfirlýsingu þar sem það játaði á sig föðurlandssvik. Margar ábendingar sama efnis bárust hingað til lands frá hópnum og greint frá því í flestum innlendum fjölmiðlum í gær.
DV bárust ábendingar í morgun frá aðila hvers aðstandandi var í hópnum í gær og hafði ekki hlotið þá meðferð sem hér er lýst. „Hann sagði að móttökurnar hefðu verið til fyrirmyndar. Enginn var rændur og það var komið vel fram við fólkið að öllu letti. Þeir eru með einhverskonar móttökuferli sem mér skilst að taki tvo daga en þau fá gistingu og þess háttar,“ segir maðurinn.