Erin Britton fann sig í þeirri óbærilegu stöðu nýlega að vera gift manni sem hafði játað sekt í um 60 ákæruliðum sem fjölluðu flestir um hrottalegt hundaníð. Eiginmaður hennar, Adam Britton, fór frá því að verða virtur krókódílasérfræðingur yfir í að vera einn hataðasti maður Ástralíu þegar mál hans var rekið nýlega fyrir dómstólum þar í landi og málsatvik þykja það ógeðfelld að fæstir treysta sér til að heyra þau og hvað þá miðla þeim áfram.
Veltu margir fyrir sér hvort Erin hafi verið meðvituð um þau myrkraverk sem maður hennar lagði stund á í pyntingarherbergi sem hann hafði útbúið í gámi í garðinum þeirra. Þar braut hann hrottalega gegn hundum og tók voðaverkin upp til að deila með öðrum afbrigðilegum á netinu.
Fram kom fljótlega að Erin væri farin úr landi til að forðast að vera dregin inn í mál eiginmannsins. Hún hafi farið í hálfs árs safarí-ferð til að ná áttum. Nú er komið fram að Erin er jafnframt búin að segja skilið við nafn sitt og þykir starfsmanni búkgarðs hjónanna ólíklegt að hún snúi til baka.
„Hún hefur bundið endi á hjónabandið og er farin, þó svo að í ljósi sláandi hegðunar eiginmannsins muni hún lifa í stöðugum ótta um að fólk beri kennsl á hana hvar sem hún endar með að búa“
Miðillinn News.com.au ræddi við nágranna hjónanna sem sögðust flestir finna til með Erin.
„Svo virðist sem að hún hafi bara rokið út og yfirgefið hann – og álasi henni það enginn eftir að hafa frétt um alla þá hörmung sem hann hefur játað á sig. Orðið á götunni hér er að þegar Erin frétti af því hvað maður hennar hafði gert hafi hún bara flúið – hún bara pakkaði í tösku og fór. Hún er farin langt í burtu, í safarí-ferð einhvern, en hvort hún muni nokkurn tímann ná að vinna úr þessu á eftir að koma í ljós.“
Nágrannar sögðu hjónin hafa verið út af fyrir sig, nema þegar þau voru að gera heimildaefni með kvikmyndafyrirtækjum og aðilum á borð við David Attenborough. Þau hafi ekki stundað það að fara á hverfisbarinn, og ekki stundað veitingastaði í nágrenninu.
„Við sem búum hér elskum það – þetta er framandi staður en nú hefur þessi einstaklingur sem kom héðan allan leið frá Englandi fyrir nokkrum árum, sett varanlegan smánarblett á líf okkar allra með því að gera það sem hann gerði við vesalings dýrin, bara hérna rétt handan við hornið.“
Adam játaði, eins og segir, skýlaust brot sín sem flest beindust að hundum. Hafði hann nauðgað, pyntað og myrt hátt í 40 hunda og misnotað enn fleiri. Hann er haldinn afbrigðilegum hvötum sem hann sagði í netspjalli í skjóli nafnleyndar að hann réði ekki við.