fbpx
Sunnudagur 31.ágúst 2025
Fréttir

Segir rekstur Bónus hafa staðið tæpt um tíma

Ritstjórn DV
Laugardaginn 9. september 2023 19:00

Jón Ásgeir Jóhannesson. Mynd: Sigtryggur Ari.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Ásgeir Jóhannesson kaupsýslumaður er nýjasti gestur Reynis Traustasonar í viðtalsþætti hans Mannlífið. Þar fer hann m.a. yfir fyrstu árin í rekstri Bónus sem Jón segir að hafi á köflum staðið tæpt.

Ferill Jóns í viðskiptum hófst fyrir alvöru á níunda áratug síðustu aldar þegar hann og faðir hans, Jóhannes Jónsson, stofnuðu Bónus sem flestir ef ekki allir Íslendingar ættu að þekkja.

Jón Ásgeir segir þá feðga hafa pælt í því í nokkurn tíma hvernig væri hægt að koma með eitthvað nýtt inn á íslenskan markað:

„Pabbi hafði verið með snefil af þessu í Austurveri. Þar var svona afsláttar þurrvörumarkaður. Við lögðum upp með þennan einfaldleika. Ætluðum að vera tveir í þessu og kannski með tvo starfsmenn. Þá gætum við lifað af þessu.“

Hann segir undirbúningsvinnuna að stofnun Bónus hafa verið mikla. Þeir feðgar hafi ákveðið að nota nýjustu tækni og þess vegna hafi Bónus verið fyrsta verslunin á Íslandi sem notaðist við strikamerkjakerfi. Þeir hafi hins vegar ekki gert sér grein fyrir því fyrr en rétt fyrir opnun að allar íslenskar vörur væru ekki með strikamerki og þess vegna þurfti að líma það á hverja og eina vöru.

Með lítilli yfirbyggingu og styttri opnunartíma hafi þeim feðgum síðan tekist að lifa af því að selja vörur á lágu verði. Hann hafi séð um vörukaup og almennt utanumhald en Jóhannes faðir hans hafi verið „natúral markaðsmaður“ með þeim árangri að Bónus eyddi ekki krónu í auglýsingar fyrstu árin en fjallað hafi verið nánast stanslaust um fyrirtækið í fjölmiðlum.

Það hafi frá upphafi verið skýr stefna að bjóða upp á lægsta matvöruverð á Íslandi og Jón segist hafa byrjað flesta morgna á því að fara í verslanir helstu samkeppnisaðila. Hafi verð á einhverri vöru verið lægra en í Bónus hafi verðið verið snarlega lækkað áður en opnað var á hádegi.

Jóhannes vildi hraðari vöxt

Jón segir að þeir feðgar hafi ekki stefnt á í upphafi að rekstur Bónus yrði jafn stór og umfangsmikill og raunin varð:

„Við ætluðum bara að hafa eitthvað að gera.“

Það hafi hins vegar verið brjálað að gera frá fyrsta degi og fljótlega var verslunum fjölgað úr einni í tvær en faðir hans hafi verið mun reiðubúnari en hann til að fjölga verslunum enn frekar:

„Karlinn var svona miklu ákafari en ég að rúlla út búðunum. Hann sá þetta alveg fyrir hvað markaðurinn væri stór fyrir þetta. Við tókumst svolítið á um það. Ég þurfti að passa að nóg væri inni á heftinu. Hann var stundum kominn með leigusamninginn næstum því undirritaðan inn á borð til mín.“

Þrátt fyrir þessa ákefð föður hans og núning á milli feðganna um hversu hratt fyrirtækið ætti að vaxa hafi þetta verið skemmtilegir tímar:

„Kaupmennska er bara skemmtileg. Það er skemmtilegt að vera í kringum þetta. Þetta er svona baktería sem þú færð.

Þrátt fyrir varfærni Jóns óx Bónus nokkuð hratt. Hann man ekki tímasetningar nákvæmlega en segir að nokkuð hratt hafi verslununum fjölgað í fimm. Síðan hafi verið ákveðið að opna verslanir utan höfuðborgarsvæðisins og byrjað á Akureyri sem hafi gengið brösulega í byrjun. Það hafi endað með því að versluninni hafi verið lokað og það sé í eina skiptið í sögu Bónus sem loka hafi þurft verslun vegna þess að salan hafi ekki verið nægilega mikil. Tryggð viðskiptavina kaupfélagsins á svæðinu, KEA, hafi verið svo mikil að Bónus náði ekki að festa sig í sessi í höfuðstað Norðurlands.

Þegar reynt var aftur að koma Bónus á laggirnar fyrir norðan þurfti Jóhannes að flytja lögheimili sitt þangað og eyða miklum tíma á Akureyri. Þá loks hafi fótfestu verið náð:

„Þá var hann orðinn gjaldgengur í pottinum. Þá kom það.“

Þegar Bónus færði sig út fyrir höfuðborgarsvæðið var það stefnan frá upphafi að selja vörurnar á sama verði um allt land en slíkt þótti áður ekki sjálfsagt mál. Jón segir að þeir feðgar hafi þurft að læra mikið um það hvernig framkvæma ætti slíkt og hvernig best væri að reka verslanir á landsbyggðinni:

„Þetta var svona lærdómskúrfa.“

Það hafi þó tekist á endanum að gera verslanirnar á landsbyggðinni arðbærar.

Reksturinn var tæpur um tíma

Reynir spyr Jón Ásgeir hvort rekstur Bónus hafi aldrei staðið tæpt. Jafnvel þegar verslanirnar voru orðnar fimm:

„Jú, jú. Við tókum aldrei lán inn í Bónus. Jú, það var stundum tæpt. Við þurftum stundum … Það voru svona gíróseðlar í gamla daga. Þá var sett í bunka. Við vorum með úttektarviku og borguðum á föstudeginum á eftir. Svo varstu farinn að læra hverjir hringdu ekki. Þeir seðlar „slæduðu“ kannski um eina viku eða tvær.“

Stækkun fyrirtækisins hafi verið hröð og kostnaður við fjárfestingar í m.a. tækjum og verslunarrými verið mikill. Fljótt eftir að verslunum fjölgaði í fimm hafi reksturinn hins vegar farið að ganga mjög vel.

Það hafi fyrstu árin verið reynt að bregða fæti fyrir Bónus. Einn helsti samkeppnisaðilinn, Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) hafi hagað sér eins og peningar væru ekkert vandamál. Heildsalar hafi einnig verið Bónus óþægur ljár í þúfu á köflum og stundum hafi fyrirtækinu verið neitað um að fá keyptar vörur. Við því hafi verið brugðist með því að Bónus fór í auknum mæli sjálft að flytja inn vörur.

Reynir spyr þá Jón Ásgeir hvort svarið hafi verið að láta ekki kúga sig:

„Það var svarið.“

Með tímanum færði fyrirtækið frekar út kvíarnar, fleiri verslanakeðjur bættust við og Baugur varð til. Jón Ásgeir gerir frekari grein fyrir því, hruninu, málarekstri gegn sér og þeim rekstri sem hann er að fást við í dag í viðtalinu sem sjá má hér.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Umdeildur lækningapredikari á leið til landsins – „Getur þú beðið guð að gera mig hávaxnari?“

Umdeildur lækningapredikari á leið til landsins – „Getur þú beðið guð að gera mig hávaxnari?“
Fréttir
Í gær

Elín sár út í borgina: Fékk enga þakkarkveðju eftir 40 ára starf

Elín sár út í borgina: Fékk enga þakkarkveðju eftir 40 ára starf
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta eru börnin sem létust í árásinni í Minneapolis

Þetta eru börnin sem létust í árásinni í Minneapolis
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Níu sagt upp störfum og framkvæmdastjórinn segir sjálfur upp

Níu sagt upp störfum og framkvæmdastjórinn segir sjálfur upp
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bónus gefið 2500 barnabónusbox og 1600 umsóknir til viðbótar bíða afgreiðslu

Bónus gefið 2500 barnabónusbox og 1600 umsóknir til viðbótar bíða afgreiðslu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Náði ótrúlegu myndbandi af ísjaka velta og hrynja í Jökulsárlón – „Þetta er hræðilega sorglegt“

Náði ótrúlegu myndbandi af ísjaka velta og hrynja í Jökulsárlón – „Þetta er hræðilega sorglegt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nýjar vendingar varðandi stolna nasistamálverkið – Horfið þegar lögregla kom á vettvang

Nýjar vendingar varðandi stolna nasistamálverkið – Horfið þegar lögregla kom á vettvang
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sviku fé af móður með því að panta vörur á Temu á kortinu hennar – „Engar sannanir fyrir því að mamma hafi auðkennt þetta“

Sviku fé af móður með því að panta vörur á Temu á kortinu hennar – „Engar sannanir fyrir því að mamma hafi auðkennt þetta“