Sigurður Ragnar Eyjólfsson mun kveðja Keflavík er keppnistímabilinu á Íslandi lýkur í október.
Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins í kvöld en um er að ræða sameiginlega ákvörðun þjálfarans sem og liðsinsm.
Keflavík er í Bestu deild karla eða efstu deild og hefur Siggi Raggi þjálfað liðið undanfarin fjögur ár.
Keflavík er þó í mikilli hættu á að falla í sumar og er sex stigum frá öruggu sæti eftir 17 umferðir.
Tilkynning Keflavíkur:
Knattspyrnudeild Keflavíkur og Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari meistaraflokks karla í Bestu deildinni hafa ákveðið að ljúka samstarfi sínu að loknu þessu keppnistímabili í október næstkomandi.
Keppnistímabilið í ár er fjórða keppnistímabil Sigurðar hjá félaginu og á hans fyrsta ári vann Keflavík Lengjudeildina og hefur síðan þá leikið í Bestu deildinni. Í fyrra endaði liðið í 7.sæti sem er besti árangur Keflavíkur síðastliðin 12 ár. Það er enn óljóst í hvaða sæti liðið lendir nú í ár en baráttan í Bestu deildinni er hörð og ennþá í gangi. Báðir aðilar hafa hins vegar komist að samkomulagi um að best sé að leiðir skilji að loknu móti í október, ákvörðunin er tekin með vinsemd og virðingu beggja aðila fyrir hvorum öðrum.
Áfram Keflavík!
Knattspyrnudeild Kefavíkur og Sigurður Ragnar Eyjólfsson.