Lögreglunni barst í dag tilkynning frá íbúa í hverfi 105 í Reykjavík um fund á beini sem hann taldi mögulega vera mannabein. Rannsókn leiddi í ljós að ekki var um mannabein að ræða.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu í dag en þar kennir ýmissa grasa og stóð lögregla í ströngu. Meðal annars var tilkynnt um tvo karlmenn í annarlegu ástandi í miðborginni. Voru báðir handteknir og vistaðir í fangaklefa, grunaðir um vopnalagabrot, vörslu fíkniefna, þjófnað og að fara ekki að fyrirmælum lögreglu.
Tilkynnt var um þjófnað úr bíl þar sem ýmsir munir voru teknir. Málið er til rannsóknar.
Tilkynnt var um mann eða konu (kyn ekki tilgreint) sem var sofandi í bíl fyrir utan bensínstöð, og var viðkomandi með barn í bílnum. Segir síðan að málið hafi átt sér eðlilegar skýringar.
Tilkynnt var um eld í rafhlaupahjóli fyrir utan húsnæði í hverfi 105. Ekki er greint frekar frá því.
Ekið var á gangandi vegfaranda með barn í kerru og ók ökumaður síðan af vettvangi. Kerran skemmdist en ekki urðu slys á fólki. Málið er til rannsóknar.
Í Kópavogi eða Breiðholti var maður handtekinn og vistaður í fangaklefa þar sem hann er grunaður um marga þjófnaði fyrir hundruð þúsunda.