Það virðast vera engar líkur á því að Paul Pogba sé að yfirgefa Juventus í sumarglugganum.
Það er miðað við orð Cristiano Giuntoli, yfirmanns knattspyrnumála Juve, en Pogba gekk aftur í raðir félagsins í fyrra.
Frakkinn var mikið meiddur á tímabilinu og spilaði aðeins tíu leiki í öllum keppnum.
Hann hefur verið orðaður við Sádí Arabíu en samkvæmt Giuntoli mun Juventus treysta á leikmanninn næsta vetur.
,,Staðan hans er mjög skýr. Hann er náungi sem er að snúa til baka eftir erfitt tímabil og við bíðum eftir honum. Hann er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur,“ sagði Giuntoli.
,,Hann er með reynsluna og gæðin og við treystum mikið á hann að kenna yngri strákum í okkar röðum.“