Arnar Bergmann Gunnlaugsson, þjálfari Víkings í Bestu deild karla, baðst á dögunum afsökunar á að hafa notað orðið píka á niðrandi hátt í viðtali. Sigmar Vilhjálmsson og Hugi Halldórsson tóku þetta fyrir í hlaðvarpi sínu, 70 mínútur.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, hafði kallað lið Víkings það grófasta í deildinni eftir leik liðanna á dögunum.
Arnar ræddi ummælin í viðtali við Fótbolta.net. „Ég tek því sem hrósi bara,“ sagði Arnar. „Af því við vorum algjörar píkur í fyrra.“
Arnar fékk harða gagnrýni fyrir ummælin og baðst síðar afsökunar á þeim á Facebook.
„Biðst innilegrar afsökunar á ekkert eðlilega hallærislegum ummælum sem höfð voru eftir mér í gær. Árið er 2023 og ég er að nota frasa sem er bæði móðgandi og viðheldur úreltri og rangri staðalímynd. Arnar Bergmann Gunnlaugsson – gera betur.“
Sigmar botnar ekki í því að fólk telji ummælin niðrandi. „Vilt þú að píkur séu harðar og grófar?“ spyr hann í hlaðvarpi sínu.
„Það er flott að hann baðst afsökunar. En ég vil benda á að í þessu samhengi fannst mér þetta síður en svo niðrandi fyrir píkur.“
Sigmar segir suma einfaldlega skanna netmiðla í leit að einhverju til að móðgast yfir.
„Sumir nærast á því að finna eitthvað. Það les líklega fréttirnar til þess eins að finna eitthvað.
Ég skil það. Fólk vill bara stundum vera séð og að það sé tekið eftir því.“