Samtökin Íslenskur Toppfótbolti hafa legið undir gagnrýni undanfarið fyrir hvernig þau standa að málum Bestu deildar kvenna sem hefst á næstunni.
Kynjahlutföllin í opinberri auglýsingu Bestu deildanna þóttu óásættanleg, enginn Fantasy leikur er fyrir kvennadeildina og þá voru leikmenn liða boðaðir til að búa til markaðsefni á sama tíma og leikur meistara meistaranna í kvennaflokki á að vera spilaður eftir helgi.
Fyrirliðar félaga í Bestu deild kvenna gáfu út yfirlýsingu fyrir hönd þeirra í dag þar sem vinnubrögð ÍTF voru fordæmd.
„Í aðdraganda Bestu deildar kvenna hefur undirbúningur og vinnubrögð ÍTF verið í besta falli skammarleg. Ítrekað hafa komið upp atvik sem gera lítið úr kvennaknattspyrnu á Íslandi, og sem opinbera það að áhersla ÍTF er á Bestu deild karla, en ekki deildirnar tvær til jafns – þrátt fyrir yfirlýsingar ÍTF að um eitt vörumerki sé að ræða,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.
„Við hörmum það mjög að þetta sé staðan þegar svo stutt er í mót, og að enn eitt árið halli á kvennaknattspyrnuna á Íslandi. Við vonum að ÍTF sjái að sér og fari að sinna báðum deildum, eins og þeirra hlutverk sannarlega er.
Af þessum sökum höfum við tekið þá ákvörðun að leikmenn munu ekki mæta á mánudaginn til ÍTF þar sem áætlað var að taka upp markaðsefni fyrir komandi tímabil.“
Þórir Hákonarson, sem er til að mynda fyrrum framkvæmdastjóri KSÍ, fordæmir hins vegar yfirlýsingu leikmanna í færslu á Twitter. „Eitt það ómerkilegasta sem ég hef séð á 35 ára ferli í fótbolta, virkilega lélegt,“ skrifaði hann.
Íþróttafréttamaðurinn ástsæli Guðmundur Benediktsson bað hann um nánari skýringar á þessum ummælum. „Hvað finnst þér svona svakalega ómerkilegt við þetta?“
Þórir svaraði: „Að segja vinnubrögð ÍTF séu skammarleg og hvetja leikmenn til að mæta ekki til kynningar a deildinni. Það er virkilega ómerkilegt og ýmislegt annað í þessari dónalegu yfirlýsingu.“
„Fyrir okkur sem stöndum fyrir utan þetta virðist kvennaknattspyrnan bara vera búin að fá nóg eftir atburði síðustu vikna,“ svaraði Guðmundur þá.
„Hugsanlega Gummi, þú veist líklega betur en flestir að fjármunir ráða miklu í þessum bransa, og þegar hvatt er til þess að taka ekki þátt í að búa til fjármuni með kynningu og hrauna yfir þá aðila sem eru að reyna þá er það bara dónaskapur og virkilega lélegt,“ svaraði Þórir.
Að lokum skrifaði Guðmundur: „Ég hvet ykkur bara til að setjast niður með fyriliðum liðanna og leysa þetta og önnur mál sem hafa verið í sviðsljósinu.“
Hvað finnst þér svona svakalega ómerkilegt við þetta?
— Gummi Ben (@GummiBen) April 15, 2023