Mörg stórlið hafa áhuga á að fá Dusan Vlahovic til liðs við sig í sumar. Félag hans, Juventus, tekur hins vegar ekki ákvörðun með framtíð hans strax. Þetta segir félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano.
Vlahovic, sem er 23 ára gamall, gekk aðeins í raðir Juventus fyrir rúmu ári síðan en hefur verið orðaður frá félaginu nokkuð reglulega síðan.
Sóknarmaðurinn gæti leitað annað í sumar, en það er til að mynda alls ekki víst að Juventus verði í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Liðið er átta stigum frá fjórða sæti en fimmtán stig voru dregin af því fyrr á tímabilinu, líkt og frægt er.
Juventus ætlar einmitt ekki að taka neina ákvörðun um framtíð Vlahovic fyrr en ljóst er hvort liðið verði í Meistaradeildinni.
Ljóst er að fjöldi félaga hefur áhuga og tilboð gætu komið á borð ítalska félagsins.
Vlahovic hefur gert 11 mörk í 31 leik á þessari leiktíð með Juventus.