Bobby Zamora, fyrrum leikmaður Tottenham, hefur sagt ótrúlega sögu af fyrrum samherja sínum, Stephane Dalmat.
Dalmat og Zamora léku saman með Tottenham tímabilið 2003/2004 en sá fyrrnefndi var í láni frá Inter Milan.
Dalmat sýndi Tottenham afskaplega lítinn áhuga og í eitt skipti ákvað hann að yfirgefa völlinn í miðjum leik til að lenda ekki í traffík á leið á flugvöllinn.
Það voru 40 mínútur eftir af leiknum er Dalmat fékk nóg og var enginn sem áttaði sig á því hvað væri í gangi.
,,Við spiluðum leik saman með Tottenham. Eftir fimm mínútur í seinni hálfleik ákvað hann að labba af velli,“ sagði Zamora.
,,Boltinn var ekki utan vallar eða neitt þannig, hann ákvað bara að fara. Ég held ég hafi verið á bekknum og taldi að hann hafi tognað eða eitthvað þessháttar.“
,,Hann gekk beint inn í búningsklefa. Hann sagði ekki orð við neinn. Við kláruðum leikinn og veltum því fyrir okkur hvar hann væri. Enginn vissi neitt. Hann átti að koma aftur út en hann lét ekki sjá sig í tvo daga.“
,,Ég komst svo að því eftir leik að hann þurfti að ná flugi og gat ekki komist á flugvöllinn í tæka tíð beint eftir leik svo hann þurfti að fara fyrr.“
,,Hann vildi bara komast aftur til Frakklands. Þetta var einn af þeim leikmönnum sem var alveg sama.“