Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka, var síðastliðinn miðvikudag sýknaður fyrir Hæstarétti af ákæru um þátttöku í umboðssvikum. Málið á upptök sín í hruninu 2008 en mistök Endurupptökudóms urðu til þess að Hæstiréttur vísaði málinu frá og Styrmir er loks laus allra mála eftir að málið gegn honum hefur velkst um í réttarkerfinu í áratug.
Dóm Hæstaréttar má lesa hér en í frétt RÚV er þetta snúna mál rakið í helstu atriðum.
Styrmir var sakaður um hlutdeild í umboðssvikum sem fólust í tilefnislausu 800 milljóna króna láni Byrs til félagsins Exeter Holdings ehf. haustið 2008. Lánið var veitt til að Exeter gæti keypt hlutabréf í Byr sem voru verðlaus en eigendur bréfanna voru þátttakendur í þessari fléttu.
Styrmir var sýknaður af þátttöku í þessari svikamyllu í Héraðsdómi á þeim forsendum að hann hefði verið umboðslaus í þessum viðskiptum og ekki getað tekið ákvarðanir um þær. Þessu var Hæstiréttur ósammála og sakfelldi Styrmi fyrir umboðssvik árið 2013.
Árið 2019 úrskurðaði Mannréttindadómstóll Evrópu að íslenska ríkið bryti á rétti sakborninga með því að bjóða ekki upp á áfrýjunardóm þar sem sakborningar fengju tækifæri til milliliðalausrar sönnunarfærslu, munnlegrar skýrslutöku. Á þeim forsendum sótti Styrmir um endurupptöku máls síns hjá Endurupptökudómi.
Endurupptökudómur úrskurðaði að Hæstiréttur skyldi dæma í málinu að nýju. Þar gerði Endurupptökudómur afdrifarík, tæknileg mistök því hann hefði átt að senda málið til Landsréttar. Ástæðan er sú að fyrir Hæstarétti fer ekki fram nein milliliðalaus sönnunarfærsla líkt og fyrir Landsrétti.
Af þessum sökum sér Hæstiréttur sig knúinn til að vísa málinu frá og Styrmir er það með laus allra mála, sýkn saka.