fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Aðeins einn mánuður hefur ekki verið notaður sem íslenskt mannanafn – Hver verður fyrstur til?

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 12. mars 2022 16:32

Myndin er að mestu leyti samsett.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rétt er að geta þess að þessi óhefðbunda grein byrjaði sem vinnustaðagrín sem er mögulega að enda líka svona illa. Grínið hófst á því að sá sem hér þrumar á lyklaborðið spurði aðra meðlimi ritstjórnar DV að þessari áleitnu spurningu: „Hver er eini mánuðurinn sem hefur ekki verið notað sem íslenskt mannanafn?“. Áhugafólk um tilgangslausan fróðleik á ritstjórn fagnaði þessari einkennilegu spurningu en aðrir þóttust vera að vinna. Helgin nálgaðist óðfluga og  dagskráin yfir greinar sem eiga að birtast var frekar fátækleg og þar með hófst ég handa. Þetta eru mínar einu málsbætur.

Guðmundur Nóvember

Þetta byrjaði allt þegar ég heyrði af manni sem hafði heitið Guðmundur Nóvember. Mér fannst nafnið eftirtektarvert, fletti því snarlega upp í Íslendingabók og viti menn, Guðmundur Nóvember Hannesson, fæddist árið 1901 og lést árið 1990. Eins og gefur að skilja var Guðmundur fæddur í nóvember enda hefði annað verið algjört stílbrot. Guðmundur var þó ekki sá eini sem að borið hefur mánaðarheiti því alls höfðu fimm aðrir Íslendingar borið nafnið, allir sem millinafn, en enginn þeirra er enn á lífi. Allir áttu þeir afmæli í nóvember.

Forvitni mín var þá þegar vakin og að sjálfsögðu hófst ég handa við að fletta upp öllum íslensku mánaðarheitunum í Íslendingabók. Greinin stendur því og fellur með þessum upplýsingum sem Kári og hans fólk skaffar okkur.

Tveimur mánaðarnöfnum þurfti ég þó í raun ekki að fletta upp. Hið fyrra er Ágúst enda er það vinsælt mannanafn. Á móti mér á ritstjórn DV situr meira að segja rithöfundurinn og blaðamaðurinn Ágúst Borgþór Sverrisson. Þrátt fyrir nafnið á hann afmæli í nóvember eins og áðurnefndur Guðmundur. Það er að sjálfsögðu í besta falli siðferðislega vafasamt en þegar leitað var eftir viðtali vegna málsins kvaðst Ágúst Borgþór ekki vilja tjá sig á þessu stigi.

Ágúst á afmæli í nóvember

Annar mánuður sem ég hefði ekki þurft að fletta upp var Júlí. Litla systir mín náði sér nefnilega í kærasta með því ágæta nafni, tónlistarmanninn Júlí Heiðar Halldórsson. Hann er einn af 21 Íslendingi sem skartar mánaðarnafninu, sem tíðkast bæði sem fornafn og millinafn. Þá er nafnið til í karlkyni, kvenkyni og kynsegin-formi. Júlí Heiðar tekur þátt í sama siðrofi og Ágúst Borgþór því hann á afmæli í mars. Þetta virðist gilda almennt um Júlí-a landsins því aðeins 6 einstaklingar af 21 sem heita Júlí eiga afmæli í júlí.

Júlí Heiðar tók viðtalsbeiðni undirritaðs fagnandi. „Hvað er eiginlega að þér?“ sagði tónlistarmaðurinn þegar hugmyndin að tímamótagreininni var borin undir hann. Að lokum fékkst þó upp úr honum að hann er skírður eftir afa sínum, Júlí Heiðari, sem aftur var skírður eftir frænkum sínum, Júlíu og Aðalheiði, sem að dóu ungar að árum.

Júlí á afmæli í mars

Friðbjörn Janúar

En byrjum á byrjuninni – janúar. Aðeins einn Íslendingur í sögunni hefur borið mánaðarheitið sem mannanafn. Friðbjörn Janúar Eyjólfsson sem fæddist árið 1892 – að sjálfsögðu í janúar. Engin dánardagur er skráður á Friðbjörn Janúar í Íslendingabók en fremur ólíklegt er að hann sé 130 ára í góðu stuði á Grund. Upplýsingum um afdrif hans verður tekið fagnandi og bætt inn í greinina.

Alls hefur 31 Íslendingur heitið Mars, sem einnig hefur verið ritað Marz. Af þeim eru aðeins fjórir sem heita nafninu að fornafni. Þá eru aðeins 9 af 31 Mörsurum sem fæddust í mánuðinum.

Mánaðarheitið Apríl er vinsælt kvennanafn því alls heita 78 konur því fallega nafni en sú fyrsta kom fram árið 1960. Apríl er algengast sem fornafn frekar en millinafn og hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár. Aðeins 21 af þeim sem bera nafnið eru fæddar í aprílmánuði.

Fimmtíu og sex einstaklingar heita Maí eða Mai. Hið fallega nafn er bæði notað sem fornafn og millinafn – nánast alltaf af kvennmönum – en einnig eftirnafn. Þar á meðal eru bræðurnir  og skákmeistararnir Aron Þór og Alexander Oliver Mai. Rétt er að geta þess að undirritaður hefur mátað þá báða. Aðeins 11 Maí-arar af 56 eiga afmæli í maí.

Aðeins 11 einstaklingar bera nafnið Júní sem er aðallega notað sem millinafn. Aðallega eru það karlmenn sem bera nafnið en konurnar eru tvær. Meirihlutinn, sex af 11, á afmæli í júní.

Guðmann Guðfinnur September

Ber-mánuðirnir eru ekki vinsæl mannanöfn, því er nú verr og miður, og illu heilli eru nánast allir sem þau báru látnir.

Aðeins tveir einstaklingar hafa borið mannanafnið September. Annars vegar ung kona sem búsett er í Svíþjóð, Felicia M. September Diego, en síðan er það Guðmann Guðfinnur September Grímsson sem fæddist árið 1902 og lést árið 1987. Hann átti að sjálfsögðu afmæli í september og Felicia sömuleiðis.

Þá eru bara tveir einstaklingar sem bera mannanafnið Október. Jóhannes Október Einarsson, fæddur 1864 en lést aðeins ári síðar, og Sveinbjörn Matthías Október Sveinbjörnsson, fæddur 1904 og látinn árið 1975. Báðir áttu þeir afmæli í október.

Þegar hefur verið minnst á Guðmund Nóvember og þá fimm sem einnig báru það mánaðarnafn en aðeins einn Íslendingur hefur borið jólamánuðinn sem mannanafn. Alexander Desember Jónsson fæddist árið 1897 en hann lést árið 1958. Eins og gefur að skilja fæddist Alexander í desember.

Foreldrar Ber-nafna bera því af í rökhugsun og staðfestu. Börnin heita ekki mánaðarnafni nema að þau séu fædd í mánuðinum. Aðrir foreldrar mánaðarbarna þurfa að hugsa sinn gang.

Niðurstöður greinarinnar eru þó þessar. Enn geta einhverjir foreldrar markað barni sínu einstakan sess í Íslandssögunni með því að skíra viðkomandi Febrúar. Ef gert er ráð fyrir fullri meðgöngu þyrfti getnaður þá að eiga sér stað í maí.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Fyrir 2 dögum

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir