Marcel Römer, fyrirliði Lyngby í Danmörku verður í leyfi frá störfum um óákveðinn tíma eftir að eiginkona hans lést á mánudag. Cecile eiginkona hans lést á mánudag en Römer er lykilmaður í Lyngby þar sem Freyr Alexandersson er þjálfari liðsins.
Römer á einnig tvo íslenska liðsfélaga en Sævar Atli Magnússon og Frederik Schram eru í herbúðum danska liðsins sem leikur í næst efstu deild.
Vikan hefur reynst erfið fyrir leikmenn Lyngby en liðið á leik gegn Fremad Amager í kvöld. „Við höfum lagt mikið upp úr samheldni í okkar hóp frá upphafi, núna finnum við að við eigum eitthvað einstakt saman,“ segir Freyr í samtali við Bold.dk.
Meira:
Eiginkona fyrirliða Freys lést á mánudag – „Hjarta mitt er brotið, þetta átti aldrei að gerast“
„Enginn okkar getur sett sig í stöðu Marcels núna og síðustu dagar hafa verið mjög erfiðir.“
Freyr segir að allir leikmenn og starfsmenn Lyngby hugsi til Römer. „Hugur okkar eru að sjálfsögðu hjá Marcel, börnunum og fjölskyldunni.“
Freyr segir leikmenn liðsins ekki hafa reynt að einbeita sér að fótboltanum á þessum erfiðu tímum. „Við höfum ekki einbeitt okkur að fótbolta undanfarna daga. Við höfum ekki æft mikið því það hafa verið hlutir sem hafa verið mikilvægari en við erum auðvitað tilbúnir í leikinn.“