fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
433Sport

Skin og skúrir í rússíbana ferð Arons Jó um Evrópu – ,,Ég hef svolítið gleymt að njóta“

Helgi Sigurðsson
Fimmtudaginn 11. nóvember 2021 08:00

Aron Jóhannsson Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aron Jóhannsson er mættur heim til Íslands úr atvinnumennsku. Framherjinn mun leika með Val á næstu leiktíð. Hann fór yfir ferilinn og komandi tíma með Val í sjónvarpsþætti 433 á Hringbraut fyrr í vikunni.

Heilt yfir sáttur með árin úti

,,Ég hef oft komið og verið kannski í 1-2 mánuði. Svo þetta er allt eðlilegt. En núna þegar það er farið að dimma og maður er svolítið fastur hérna, maður getur ekki farið út, þetta er að kicka inn, að vera mættur fyrir fullt og allt,“ sagði Aron um það að vera fluttur heim til Íslands.

Aron, sem er 31 árs í dag, var í um ellefu ár í atvinnumennsku. Þegar hann lítur til baka er hann nokkuð ánægður með tímann.

,,Ég er bara þokkalega ánægður með þetta. Ég er svolítið metnaðargjarn og auðvitað hefði maður viljað gera margt betur og kannski verið lengur í Þýskalandi og þessum stærstu deildum. En þegar ég lít til baka er ég nokkuð stoltur af þessu.“

Raðaði inn mörkum í Danmörku rúmlega tvítugur

Eftir að hafa slegið í gegn með Fjölni í næstefstu deild á Íslandi fór Aron til AGF í Danmörku árið 2010. Þar gekk vel. Aron skoraði alls 24 mörk í 70 leikjum í Árósum. Flest þeirra komu á þriðja og síðasta tímabili hans er hann raðaði inn mörkunum. Hann var í miklum metum hjá stuðningsmönnum AGF.

,,Ég held að maður hafi ekki áttað sig á þessu þegar maður var þar. Maður var bara ungur vitleysingur, fattaði ekkert hvað þetta var stórt á þeim tíma. Ég var 21 árs þegar ég var markahæstur í dönsku úrvalsdeildinni, 22 kannski. Þegar maður horfir á deildina núna getur maður rétt ímyndað sér hypeið og allt þetta sem væri á social media ef það væri Íslendingur markahæstur í deildinni. Þegar maður horfir til baka þá var þetta auðvitað skemmtilegt afrek,“ sagði Aron.

Nokkur atriði spiluðu inn í það að Aron endaði hjá AGF.

,,Pabbi var að fara til Árósa í skóla. Og Gulli Victor (Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður) var búinn að vera þarna áður og lagði inn gott orð fyrir mig. Síðan komu þeir að horfa á mig keppa og buðu mér á reynslu. Ég fer og keppi leik með þeim. Ég held ég hafi skorað eitt og lagt upp tvö eða skorað tvö og lagt upp eitt, stóð mig allavega fáránlega vel. Þeir höfðu mikinn áhuga á mér. Síðan komu þeir heim, fylgdust með einhverjum 1-2 leikjum. Þetta var í 1. deildinni með Fjölni. Það gekk vel þar, ég var að skora og leggja upp í hverjum leik. Þá ákváðu þeir bara að kýla á þetta.“

Ungur Aron í leik með AGF. Mynd/Getty

,,Veit ekki hvort að ég sé bara svona vitlaus“

Aron var ekki í miklum erfiðleikum með að aðlagast atvinnumennsku. Hann segist alltaf hafa haft mikla trú á sér.

,,Nei, ég veit ekki hvort að ég sé bara svona vitlaus. Eftir viku skildi ég ekkert í því að vera ekki kominn í byrjunarliðið. Það hefur verið svolítið stór partur af ferlinum mínum í atvinnumennsku. Ég hef alveg bilaða trú á sjálfum mér. Það var erfitt að kyngja því að vera aðalmaðurinn í Fjölni og fara svo út og fá ekki að spila strax. En svo gerir maður sér grein fyrir því að þetta er svolítið mikið stærra heldur en flest allt hérna á Íslandi. Síðan bara komst ég í liðið og eftir það var ekki aftur snúið.“

Gleymdi að njóta augnabliksins

Eftir dvölina hjá AGF hélt Aron til AZ Alkmaar í Hollandi. Deildin var stór og félagið einnig. Aron stóð sig þá vel, skoraði 38 mörk og lagði upp önnur 11 á tveimur tímabilum. Hann segist þó ekki hafa kunnað að meta tímann hjá AZ almennilega á meðan honum stóð.

,,Maður tók því sem sjálfsögðum hlut. Ég var í byrjunarliðinu alltaf og stóð mig þokkalega vel, að skora og leggja upp mörk og standa mig vel. Ég gleymi því ekki þegar ég var tekinn út af á 70. mínútu og gjörsamlega trompaðist út í þjálfarann. Ég var ekki búinn að skora og við vorum ekki að vinna. Þá tók maður þessu sem sjálfsögðum hlut. Maður var bara kominn þangað og mér fannst ég bara vera einn af þeim bestu í liðinu. Kannski átti ég bara skilið að spila hvern einasta leik. En maður áttaði sig ekki alveg á stærðargráðunni á þessu kannski.“

Hann hélt áfram; ,,Það er mjög gaman. Samt var ég alltaf þar að hugsa um næsta skref. Maður kannski naut þess ekki nógu mikið að vera þarna því hausinn var alltaf ,,ég verð að skora, standa mig vel“ til að komast á næsta skref.“

Mynd/Getty

Árið 2015 hélt Aron til Werder Bremen í þýsku Bundesligunni. Hann segist einnig hafa gleymt því að njóta augnabliksins í upphafi tímans í Þýskalandi.

,,Ég byrjaði fyrstu leikina, spilaði 5-6 leiki og skoraði kannski 2-3 mörk og lagt upp einhver. Þá var ég bara að hugsa um að standa mig vel hérna til að komast í næsta skref, komast í ensku úrvalsdeildina eða Dortmund eða eitthvað af þessum risaliðum í Þýskalandi. Ég hef svolítið gleymt að njóta og verið að fókusera á að standa mig vel á þessu stað til að komast áfram.“

Erfið meiðsli höfðu áhrif á fjölskyldulífið

Tíminn hjá Werder gekk ekki hnökralaust fyrir sig. Vegna erfiðra meiðsla gat Aron aðeins spilað 30 leiki fyrir félagið á fjórum árum.

,,Ég spilaði kannski í tvo mánuði og var svo meiddur í heilt ár. Þá kom hökt á þetta plan hjá mér að fara lengra og lengra. Næsta tímabil byrja ég líka. Ég man ég var búinn að vera meiddur í 11 mánuði og fyrsti leikurinn sem ég spilaði var fyrsti leikurinn í deildinni á útivelli á móti Bayern Munchen. 6-0 tap þarna í fyrsta leik. Ekki alveg draumabyrjun eftir 11 mánuði.“

Aron þurfti nokkrum sinnum að koma til baka úr meiðslum á tíma sínum í Þýskalandi. Hann segir það hafa tekið á andlega þáttinn og fjölskyldulífið.

,,Það var mjög erfitt en á þeim tíma var þetta tekið á hörkunni, ekkert væl, þýðir ekki að vera að væla. En konan talar ekki vel um þennan tíma eftir þessi meiðsli. Þá var þetta svolítið þannig að ég fór á æfingar klukkan átta um morguninn og var kominn heim klukkan fjögur. Þá settist ég bara í sófann og vildi ekki tala við einn eða neinn, nennti ekki að fara út og nennti bara ekki að sinna fjölskyldunni. Þegar maður lítur til baka er alveg augljóst að manni leið ekki vel á þessum tíma.“

Lífið hjá Werder var ekki alltaf dans á rósum. Mynd/Getty

Bjartari tímar og æfingar með Zlatan

Við tóku þó bjartari tímar hjá Hammarby í Svíþjóð. Aron skoraði 15 mörk í 37 leikjum á ári sínu þar. Hann hafði þó úr öðrum félögum að velja.

,,Ég fékk mikið af möguleikum. Mikið af mismundandi löndum sem vildu fá mig með mismunandi tilboð, hvort maður vildi fara í eitthvað af þessum skrýtnu löndum og þéna mikið af peningum eða, eins og við ákváðum á endanum að gera, fara til Stokkhólms, sem er æðisleg borg og gott að vera með fjölskyldu þar. Taka eitt skref til baka á fótboltalega vegu til að fá að spila og komast í gang. Ég vissi það að ef ég yrði heill fengi ég að spila alla leiki. En rétt fyrir mót 2020 fæ eg Covid. Það dregur aðeins úr þessu. En um leið og ég kemst í gang og fæ að spila 90 mínútur í hverjum einasta leik þá kom maður til baka og fara að skora í hverjum einasta leik. Það var æðisleg tilfinning.“

Aron var í rúmt ár í Svíþjóð þar sem hann upplifði mjög góða tíma. Eitt af því sem stendur þar upp úr er það að hafa æft með Zlatan Ibrahimovic.

Zlatan er einn af eigendum Hammarby en þegar COVID-19 veiran var að hrella flesta héldu Svíar sínu striki og æfðu. Zlatan fór því heim og fór að æfa með liðinu sem hann á.

„Það var furðulegt, maður hefur spilað með stórum karakterum bæði í landsliði og á ferlinum. Þetta var á næsta stigi, hann kemur þarna út af COVID og æfir með okkur í einhverja tvo mánuði. Helvítis gæinn tapaði ekki einu sinni á æfingu, þetta er vélmenni.“

Zlatan er í dag fertugur og leikur með AC Milan í úrvalsdeildinni á Ítalíu. „Þú sérð hann þar, þú getur ímyndað þér hvernig hann var á æfingum hjá okkur í Svíþjóð.“

„Eins og ég lýsti þessu fyrir vini mínum, þetta væri eins og ég færi að æfa með 4 flokki. Hann er nálægt tveimur metrum og er 90 kíló. Hann er miklu sterkari en allir og hefur miklu meiri kraft. Tæknin og hæfileikarnir, þetta er bara galið. Þetta gaf okkur auka kraft,“

„Við vorum alltaf í sitthvoru liðinu sem framherjar, ég vann því varla leik á æfingu í tvo mánuði. Við lögðum meira á okkur á hverri æfingu til að reyna að vinna hann en það gekk ekki vel.“

Zlatan er magnaður. Mynd/Getty

Óheppinn í Póllandi

Fyrr á þessu ári fór Aron til Lech Poznan í Póllandi. Byrjunin þar lofaði góðu en svo komu upp meiðsli.

,,Þetta var mikil óheppni. Ég hef mjög jákvæða hluti að segja um Pólland. Það kom mér virkilega á óvart. Það er eiginlega hægt að líkja Lech Poznan við Werder Bremen, upp á völl og áhorfendur, aðstæður. Þetta kom mér mjög á óvart og var mjög jákvætt að því leiti.“

,,Ég byrja rosa vel, skora mark í fyrstu tveimur leikjunum, vinnum fyrstu þrjá. Síðan fer eitthvað aðeins að halla undan fæti hjá okkur. Síðan kemur sumarið og ég er að koma mér aftur í gang en þá meiðist ég á öxl, lendi eitthvað illa.“

Aron lenti aftur í meiðslum í Póllandi. Mynd/Getty

,,Enginn í heiminum getur sett pressu á mig eins og ég geri sjálfur“

Sem fyrr segir er Aron nú kominn heim til Íslands og búinn að semja við Val. Hann segir umhverfið á Hlíðarenda heillandi.

,,Ég er bara spenntur fyrir þessu. Að koma heim er skrýtið, maður er búinn að búa erlendis í 10-11 ár. En ég er bara sáttur með þetta og fjölskyldan er ánægð.“

,,Ég æfði með þeim í janúar og mér finnst þetta mjög áhugavert. Mér finnst þetta vera mjög professional miðað við til dæmis það sem ég var vanur í útlöndum, æfingar, það er þokkalega hár standard á þessu. En það eru kannski 2-3 þjálfarar hérna. Hjá Poznan vorum við að fara upp í 7-8 þjálfara. Það vantar eitthvað smá til að gera þetta ennþá betra en ég er bara spenntur fyrir þessu.“

Metnaðurinn hjá Val og pressan sem Aron setur á sjálfan sig hjálpuðu til við ákvörðunina um að koma í Val.

,,Ég ræddi við nokkur lið. Það var gaman að koma heim og hafa nokkra möguleika. Mér finnst spennandi verkefnið hjá Val. Metnaðurinn í klúbbnum er bara að vera Íslands -og bikarmeistari á hverju ári. Allt undir því er yfir pari. Í atvinnumennsku er lífið svolítið svoleiðis. Það eru teknar erfiðar ákvarðanir. Þetta er sama umhverfi og ég er vanur og mér fannst það spennandi.“

,,Maður finnur alveg pressu en bara mest frá sjálfum mér. Enginn í heiminum getur sett pressu á mig eins og ég geri sjálfur. Ég held að það geti bæði verið gott og slæmt. Ég er orðinn vanur því að vera með pressu á mér, búinn að vera atvinnumaður í tíu ár.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Mistök hjá Liverpool? – Vill sjá fyrrum stjóra Chelsea við stjórnvölin

Mistök hjá Liverpool? – Vill sjá fyrrum stjóra Chelsea við stjórnvölin
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Einkunnir Tottenham og Arsenal – Havertz valinn bestur

Einkunnir Tottenham og Arsenal – Havertz valinn bestur
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Stjarnan tjáir sig eftir ótrúlega umfjöllun blaðamanns: Hótar lögsókn og ásakar hann um lygar – ,,Hef aldrei og mun aldrei gera þessa hluti“

Stjarnan tjáir sig eftir ótrúlega umfjöllun blaðamanns: Hótar lögsókn og ásakar hann um lygar – ,,Hef aldrei og mun aldrei gera þessa hluti“
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

,,Hann má taka því rólega í tveimur leikjum gegn okkur“

,,Hann má taka því rólega í tveimur leikjum gegn okkur“
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

Messi minnir verulega á sig – Var stórkostlegur í nótt

Messi minnir verulega á sig – Var stórkostlegur í nótt
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Skoraði ekki mark og mistókst að bæta met Henry og Kane

Skoraði ekki mark og mistókst að bæta met Henry og Kane
433Sport
Í gær

Féll í yfirlið á Subway og var fluttur á sjúkrahús: ‘Stóri engillinn’ kom til bjargar – ,,Er allt í lagi með þig!?“

Féll í yfirlið á Subway og var fluttur á sjúkrahús: ‘Stóri engillinn’ kom til bjargar – ,,Er allt í lagi með þig!?“
433Sport
Í gær

England: Chelsea kom til baka á Villa Park

England: Chelsea kom til baka á Villa Park