Víkingur er Mjólkurbikarmeistari eftir 3-0 sigur á Skagamönnum á Laugardalsvelli í dag. Þetta var þriðji titill Víkinga á tveimur árum undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar en hann vann Íslandsmeistaratitilinn með liðinu fyrr í sumar og Mjólkurbikarinn árið 2019.
Aðspurður hvernig honum fannst leikurinn í dag spilast sagði Arnar: „Mér fannst hann mjög skemmtilegur, það vantaði smá upp á gæðin á köflum en hann var mjög skemmtilegur.“
Arnar tók undir það að þetta væri frábært afrek fyrir sína menn en impraði hins vegar á því að Víkingar mættu ekki láta deigan síga þrátt fyrir að vinna tvöfalt.
„Það má ekki sofna á verðinum, ég varaði við því 2019 eftir úrslitaleikinn að sofna ekki á verðinum. Við gerðum það aðeins í fyrra. Við vorum aðeins of værukærir þannig að við verðum að sjá til þess að við gerum ekki sömu mistök aftur,“ sagði Arnar í samtali við blaðamann 433.
Viðtalið má sjá hér að neðan.