Manchester United-goðsögnin Roy Keane er ánægður með að Cristiano Ronaldo sé kominn aftur til félagsins. Hann telur komu portúgalska snillingsins þó ekki nóg fyrir Man Utd til að vinna Englandsmeistaratitilinn.
Hinn 36 ára gamli Ronaldo sneri aftur til Man Utd á föstudag. Hann er lifandi goðsögn hjá félaginu eftir að hafa verið á mála þar á árunum 2003 til 2009. Á fyrri tíma sínum á Old Trafford varð Man Utd til að mynda Englandsmeistari í þrígang ásamt því að sigra Meistaradeild Evrópu.
Keane segir koma Ronaldo frábærar fréttir fyrir bæði Man Utd og ensku úrvalsdeldina.
,,Þetta eru frábærar fréttir fyrir United, fyrir stuðningsmennina og úrvalsdeildina. Ég er ekki í neinum vafa um það að hann er enn leikmaður í heimsklassa.“
,,Hann er klár náungi. Hann er að snúa aftur til þess að sigra titla. Hann mun koma með sigurhugarfar í klefann. Við vitum að hann er í svakalegu formi. Hann hefur auðvitað breytt leikstíl sínum undanfarin ár. Hann er einn gáfaðasti leikmaður sem ég hef nokkurn tímann séð.“
,,Ég efast um að hann muni gera útslagið þegar kemur að því að vinna titla. Vandamál Man Utd eru enn til staðar, með eða án hans. Vandamálið er markvarslan og miðjan. Ég sé margt jákvætt við þetta en ég held ekki í eina sekúndu að þetta verði nóg til þess að liðið verði Englandsmeistari.“