Rita Johal, söngkona og fyrrum eiginkona knattspyrnumannsins Riyad Mahrez, segir leikmanninn hafa snúið baki við henni og fjölskyldu sinni eftir að hann gekk til liðs við Manchester City.
Mahrez gekk í raðir Man City frá Leicester City árið 2018. Johal segir að á tíma sínum hjá Leicester hafi Mahrez verið rólegur fjölskyldufaðir. Saman eiga þau tvær dætur.
Það hafi hins vegar breyst þegar hann fékk samning upp á 160 þúsund pund á viku hjá stórliði Man City.
,,Riyad lét frægðina stíga sér til höfuðs. Hann breyttist þegar hann fór til Manchester City,“ sagði Johal við The Sun.
,,Ferill knattspyrnumanns er stuttur. Þeir ættu að halda sér á jörðinni og halda tryggð við þá sem þeim þykir vænt um, þrátt fyrir að þeir fari í stærra félag. Þegar ferlinum er lokið átta þeir sig á því hver er virkilega til staðar fyrir þá,“ bætti hún við.
Johal segist hafa breytt ýmsu í sínu lífi fyrir Mahrez á tíma þeirra saman. Þau voru saman í um fimm ár. Hún hætti til að mynda að drekka þar sem hann er múslimi. Hann vildi rólegt líf og það samþykkti hún.
Johal segir hins vegar að Mahrez hafi orðið kaldur og fjarlægur eftir að hann fékk í gegn félagaskiptin til Man City.
,,Sá Riyad sem ég kynntist er önnur manneskja en sá sem hann er í dag. Hann djammar og lætur eins og stjörnuleikmaður.“
,,Ég hata hann ekki, það er sterkt orð. En ég er í áfalli og virkilega leið yfir því sem hann hefur gert. Hann fór skyndilega frá mér og kenndi pressunni sem fylgir því að spila fyrir Manchester City um.“
Mahrez flutti út af heimili fjölskyldunnar árið 2019. ,,Ég grátbað hann um að koma heim en hann sagðist ekki geta það vegna pressunnar sem fylgir fótboltanum,“ sagði Johal um fluttninginn.
,,Sannleikurinn er sá að honum leiddist. Það var ömurlegt fyrir mig. Aðdáendur hans lögðu mig í einelti á netinu. Mér leið eins og ég væri misheppnuð.“
Harry Kane, framherji Tottenham, virtist nálægt því að ganga til liðs við Manchester City um tíma í sumar. Nú er þó ljóst að þau skipti munu ekki ganga í gegn. Johal segir eiginkonu hans heppna vegna þess.
,,Ég get ekki talað fyrir annað fólk en að fara þangað breytti eiginmanninum mínum. Eiginkona Harry Kane er líklega heppin að hafa sloppið. Aðrir ættu að vara sig.“