Kurt Zouma hefur gengið til liðs við West Ham United frá Chelsea en félagið staðfesti þetta á heimasíðu sinni í kvöld.
Miðvörðurinn kom til Chelsea árið 2014 og var lánaður út nokkrum sinnum, þar á meðal til Stoke City og Everton. Zouma kom aftur inn í byrjunarliðið í stjórnartíð Frank Lampard og stóð sig með miklum sóma en spilaði minna eftir að Thomas Tuchel tók við liðinu.
Zouma vann Meistaradeildina með Chelsea á síðustu leiktíð, en hann vann einnig deildarbikarinn og tvo Englandsmeistaratitla á tíma sínum hjá félaginu en hefur nú skrifað undir fjögurra ára samning við nágranna þeirra í West Ham.
„Kurt gengur til liðs við hóp fullan af hungruðum og metnaðarfullum leikmönnum. Hann mun veita okkur samkeppni um sæti í liðinu. Hann er sterkur og öflugur leikmaður með mikla reynslu af ensku úrvalsdeildinni og er einnig á góðum aldri fyrir miðvörð,“ sagði David Moyes, þjálfari West Ham.