Ole Gunnar Solskjaer segist ætla að senda hinn unga Amad Diallo á lán eftir endurkomu Cristiano Ronaldo til Manchester United.
Diallo er 19 ára gamall vængmaður og kom til United frá Atalanta í fyrra á 18.7 milljónir punda, en kaupverðið gæti hækkað upp í 37 milljónir punda með álagningu.
Hann lék átta sinnum fyrir United á síðasta tímabili og skoraði eitt mark, en með komu Jadon Sancho í sumar og nú Cristiano Ronaldo, sem getur einnig spilað á kantinum, þykir ólíklegt að Diallo fái mikið að spila.
Solskjaer neitaði að segja hvert Diallo færi á lán fyrr en það væri búið að staðfesta það. „Já ég býst við því (að hann fari á láni). Það er ekki 100% búið að skrifa undir, en við höfum samþykkt það. Ég þarf ekki að segja hvaða lið það er, en við fundum stað sem við og Amad erum spenntir fyrir,“ sagði Solskjaer í viðtali við MUTV fyrir leikinn gegn Wolves á sunnudaginn.