DV hafa borist myndbönd af atviki sem átti sér stað í Garðabæ, skammt frá Aktu taktu og Garðaskóla, á sunnudag. Myndböndin sýna hóp barna veitast að stúlku með andlegu og líkamlegu ofbeldi. Ein stúlka hefur sig mest frammi í ofbeldinu en aðrir viðstaddir taka einnig þátt.
Stúlkunni er skipað að fara á fjóra fætur og sagt að hún eigi að sleikja skó. Það er hrækt á hana, öskrað á hana ókvæðisorðum og gelt að henni og þegar stúlkan situr í jörðinni er sparkað í hana.
DV náði sambandi við móður stúlkunnar sem varð fyrir ofbeldinu og vildi hún veita nafnlaust viðtal þó að málið sé viðkvæmt enda telur hún mjög brýnt að vekja foreldra til umhugsunar um hvaða börnin þeirra eru að aðhafast.
„Hún er ekki sú eina sem hefur lent í þessu né á eftir að lenda í svona,“ segir móðirin.
DV hefur tekið myndböndin saman í eitt ópersónugreinanlegt myndband sem sjá má neðst í fréttinni. Börnin á myndbandinu eru flest ef ekki öll fædd árin 2007 eða 2008 og eru því 12 til 14 ára. Stúlkan sem varð fyrir ofbeldinu er á 13. ári.
„Þessi börn búa flest í Garðabæ, tel ég, en dóttir mín er úr Breiðholtinu,“ segir móðirin. Myndbandið sýnir að mörg barnanna eru vespueigendur en móðirin telur að þau séu ekki hluti af vespugengi sem farið hefur á milli Kópavogs og Breiðholts undanfarið og valdið töluverðum usla, en þau börn eru meðal annars grunuð um alvarlega líkamsárás. Vespueign barna og unglinga er orðin mjög útbreidd og vespugengin mörg.
„Ég vona að þetta mál geti orðið til þess að foreldrar vakni til meðvitundar um hvað börnin þeirra eru að gera. Ef barnið þitt á vespu þá hefurðu ekki hugmynd hvar það er né hvað það er að gera. Eftir svona uppákomu fer barnið kannski heim með sakleysisbros og segist hafa reynt að hjálpa. En vídeóið sýnir að enginn hjálpaði,“ segir móðirin, en atlagan að dóttur hennar stóð yfir í um 20 mínútur:
„Hún sendi mér skilaboð á meðan þessu stóð, hún þorði ekki að hringja því hún var hrædd um að síminn yrði hrifsaður af henni,“ segir konan ennfremur og skýrir frá því að móðir vinkonu dóttur hennar hafi komið dóttur hennar til hjálpar. Vinkonan hljóp burtu frá vettvanginum og náði í móður sína sem kom og stöðvaði ofbeldið, kom stúlkunni í skjól og hafði samband við móðurina.
„Ég hafði samband við barnavernd sem er að vinna þetta mál mjög vel og mjög hratt að mínu mati,“ segir konan, en barnavernd boðaði strax til fundar vegna málsins. Dóttir konunnar lét barnavernd í té nafnalista. Hún veit hver börnin eru en þekkir ekkert þeirra vel. Einhverjar tylliástæður voru gefnar upp sem tilefni atlögunnar. „Þetta er eitthvert svona barnadrama og vitleysa,“ segir konan.
„Þetta er hræðilegt fyrir barnið mitt og ég er ólýsanlega reið,“ segir hún. Hún segist upplifa sig mjög vanmáttuga og þess þá heldur að börnin eru undir lögaldri og því ekki hægt að saksækja þau og refsa þeim fyrir þetta skelfilega ofbeldi. Sem betur fer bendi þó vinnubrögð barnaverndar í málinu til þess að þau verði látin horfast í augu við misgjörðir sínar.
„Ég spyr mig hins vegar: Hvað verður um dóttur mína? Á hún eftir að jafna sig á þessu?“ spyr konan en eins og gefur að skilja var stúlkan miður sín eftir ofbeldið og líklega er langt þar til afleiðingar þess koma allar í ljós.
Konan veit ekki hver tók upp myndböndin af ofbeldinu né dreifði þeim, né í hvaða tilgangi það var gert. Hins vegar hafa myndböndin vakið reiði meðal vina dóttur hennar sem hafa sótt að stúlkunni sem harðast gekk fram í ofbeldinu og krafið hana um afsökunarbeiðni til dóttur hennar.
„Þetta stoppar ekkert þarna, þess vegna verður að grípa í taumana annars staðar frá, af því þetta elur af sér meira.“
Sem fyrr segir telur konan að þetta ofbeldi sem dóttir hennar varð fyrir þarna sé ekkert einsdæmi og mikilvægt sé að foreldrar og samfélagið vakni til vitundar um hvað er í gangi hjá hluta barna og unglinga í dag:
„Ég hef rekist á myndbönd þar sem verið er að sparka í liggjandi börn og það eru dregnir fram hnífar, þau eru að haga sér eins og einhverjir gangsterar í New York. Þetta eru þau að senda á milli sín og þetta finnst þeim sniðugt. Foreldrar verða að vakna og fylgjast með hvað börnin þeirra eru að gera.“