fbpx
Laugardagur 05.júlí 2025
Fréttir

Margir minnast Styrmis – „Spor hans munu í ljósi sögunnar eflaust reynast dýpri en nokkurn grunar“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 21. ágúst 2021 14:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins lést í gær 83 ára að aldri. Margir minnast nú Styrmis á samfélagsmiðlum enda merkur maður sem markaði djúp spor á íslenskt samfélag. Hann var mikill samfélagsrýnir og skrifaði vikulega greinar í helgarblaði Moggans og birtist síðasta grein hans nú í morgun, í sama blaði og tilkynnt var um andlát hans í.

Þannig var hann

Fjallað er um Styrmi í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, en þau skrif eru jafnan eignuð ritstjóra blaðsins, Davíði Oddssyni.

„Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins um langa hríð, skrifaði á hefðbundnum tíma grein í blaðið sem birtist í dag, laugardag, á sínum sérstaka stað. Hann hafði fengið próförk senda, las hana yfir á heimili sínu, undirritaði og sendi hana til baka til birtingar.

Það varð hans síðasta verk.

Frétt um andlát hans er á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Síðar gefst samferðamönnum hans færi á að minnast hans.

Hann var ötull og lifandi í starfi sínu, tryggur þeim samferðamönnum sem hann bast böndum, tryggur og trúr málstað sem hann taldi verðskulda stuðning góðra manna, og vakandi yfir hagsmunum þeirra sem of oft vildu gleymast. Hann tók slag, stundum óvæntan slag, án umhugsunar um það, hvort þau afskipti kynnu að gera honum sjálfum gott eða vont, í bráð eða lengd.

Þannig var hann.“

Skemmtilegur maður

Illugi Jökulsson, blaðamaður, minnist Styrmis sem skemmtilegs manns sem setti sína nánustu ávallt í forgang.

„Um pólitískt starf Styrmis Gunnarssonar má margt segja og ég vona að stórmerkum blaðamannaferli hans sem ritstjóra Morgunblaðsins verði gerð viðhlítandi skil. Og hann var skemmtilegur maður, það veit ég jafnvel af okkar litlu kynnum. En mikilvægast er hverri manneskju að reynast vel og dyggilega sínum nánustu og það veit ég að Styrmir gerði sannarlega og setti framar öllu í lífi sínu. Ég sendi öllum ástvinum hans mínar hlýjustu samúðarkveðjur.“

Það þarf Shakespear

Gunnar Smári Egilsson, frambjóðandi Sósíalistaflokksins og fjölmiðlamaður, minnist Styrmis í löngu máli á Facebook þar sem hann meðal annars segir að hann hafi síðast hitt Styrmi í Þjóðmenningarhúsinu þar sem Gunnar Smári hélt fyrirlestur um kvótann.

„Þetta var stór sögulegur bogi um hvernig barátta landsmanna fyrir yfirráðum yfir auðlindum hafði endað á því að aðeins örfáar fjölskyldur höfðu náð þeim undir sig. Styrmir var hrifinn, kom til mín á eftir og tilkynnti mér að Sósíalistar myndu fljúga inn á þing með þessa narratívu. Hann óskaði mér góðs gengis.“

Gunnar Smári segir erfitt að teikna upp mynd af Styrmi Gunnarssyni fyrir aðra. „Ég er enginn Shakespeare. Það þarf svoleiðis gaur til að láta Styrmi ganga upp.“

Engum líkur

Egill Helgason, fjölmiðlamaður, segir Styrmi hafa verið engum líkur.

„Styrmir Gunnarsson var engum líkur. Skrifandi og pælandi fram á síðustu stund. Áhugamálin voru fjölþætt – það birtist grein eftir hann í Morgunblaðinu sama dag og tilkynnt er um andlát hans. Hún fjallar um tónlist. Mogginn var stórveldi í ritstjórnartíð Styrmis – og hann var sjálfur stórveldi í íslenskri blaðamennsku.“

Dýpri spor en nokkurn grunar

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona, telur sig lánssama að hafa kynnst Styrmi.

„Styrmir Gunnarsson er fallinn frá. Ég tel mig lánsama að hafa kynnst honum ofurlítið og gat leitað til hans sem kom fyrir að ég gerði. Alltaf tók hann mér vel þótt við værum alls ekki alltaf sammála. Einstaka sinnum hringdi hann líka í mig sem mér fannst sannast sagna dálítil upphefð að. Styrmir sá sitt samfélag betur en flestir þótt margt í hans fari og gjörðum sé illskiljanlegt. Við áttum nokkra sameiginlega vini sem tengdu okkur furðuböndum. Ég á eftir að sakna Styrmis úr íslensku samfélagi og spor hans munu í ljósi sögunnar eflaust reynast dýpri en nokkurn grunar.“

Glöggur á fólk og afburða skarpur

Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður, kynntist Styrmi fyrst þegar hann var aðeins barn, en Styrmir var svili föður hans. Síðan kynntist hann Styrmi enn betur þegar hann hóf að vinna í afleysingum og á sumrin hjá Morgunblaðinu í ritstjóratíð Styrmi.

„Þegar ég var lítill gutti varð ég viðhengi við hina svokölluðu Marbakkafjölskyldu, þ.e.a.s. þegar Sveinn Haukur faðir minn gekk að eiga Elínu dóttur Finnboga Rúts Valdemarssonar og Huldu Jakobsdóttur. Þar hitti hann fyrir annan tengdason þeirra sómahjóna, Styrmi Gunnarsson, en kona hans var Sigrún Finnbogadóttir, Bista. Með þeim svilum komst á góð vinátta og gagnkvæm virðing. Ég naut sem krakki hlýju og umhyggju þeirra Bistu og Styrmis.

Það var hins vegar ekki fyrr en löngu síðar að ég kynntist Styrmi almennilega, þegar ég hóf störf á Morgunblaðinu á níunda áratug síðustu aldar. Það voru forréttindi fyrir mig sem sumar- og afleysingamann á Mogganum að vinna undir stjórn ritstjóranna Styrmis og Matthíasar Johannessen. Undir stjórn þeirra blómstraði Morgunblaðið. Styrmir var gríðarlega vel tengdur í íslenzku stjórnmála- og atvinnulífi auk þess að vera frábær blaðamaður. Hann var hvetjandi við blaðamenn og óþreytandi við að fræða okkur yngri mennina um alla þá þræði sem lágu á bak við atburði samtímans, auk þess að vera óhræddur við að sýna ungum blaðamönnum traust og trúnað. Hann var mentor í blaðamennsku, flúgandi vel ritfær, hreinskiptinn, glöggur á fólk og afburða skarpur. Um leið ég minnist Styrmis Gunnarssonar, svila föður míns og lærimeistara míns, þá fá dætur hans Hulda Dóra og Hanna og allt þeirra fólk frá mér innilegar samúðarkveðjur, sem og ættingjar aðrir og vinir.“

Einlægur og hugrakkur

Sara Óskarsson, listakona og Pírati, segir að hún og Styrmir hafi verið vinir.

„Hann hringdi fyrst í mig árið 2016 eftir fjölsótt mótmæli sem ég skipulagði og sagði að ég væri “eldhugi” og sagðist vona að ég myndi aldrei missa baráttuandann! – og að þó við værum ósammála um sumt þá værum við glettilega sammála um margt annað.

Við fengum okkur stundum kaffibolla saman og ræddum um mikilvægi þess að geðheilbrigðismálin væru sett í algjöran forgang í stjórnmálum. Hann var einlægur og hugrakkur í baráttu sinni fyrir geðheilbrigðismálum.

Mér þótti vænt um Styrmi sem var fallegur maður, vel til fara, beittur í orði en diplómatískur um leið.

Réttsýnn og lýsti íslensku stjórnmálalandslagi eins og það leggur sig – og orðin eiga ennþá fullkomlega við í dag – þegar hann sagði:

„Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Hvíl í friði Styrmir“

Eftirminnilegur öllum sem hann hittu

Ármann Jakobsson, rithöfundur, segir að ekki margir viti af því að hann hafi unnið einu sinni á Morgunblaðinu.

„Eitt af því sem fáir vita um mig var að ég vann eitt sinn á Morgunblaðinu (sumarið 1991) og veit síðan að Styrmir var góður og skemmtilegur yfirmaður, hæglátur í fasi og hugsaði alltaf sitt, eftirminnilegur öllum sem hann hittu.“

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

María Rut varð sambandslaus fyrir vestan – „Þessir dauðu blettir eru út um allt“

María Rut varð sambandslaus fyrir vestan – „Þessir dauðu blettir eru út um allt“
Fréttir
Í gær

Farsæl endalok í Langahlíð Guesthouse málinu – Áhrifavaldurinn endurgreiddi trygginguna

Farsæl endalok í Langahlíð Guesthouse málinu – Áhrifavaldurinn endurgreiddi trygginguna