Frá miðnætti í gærkvöld hefur Perlan í Öskjuhlíð skartað fjólubláum lit. Það sama mun Harpa gera frá miðnætti í kvöld.
Tilefnið er herferðin #wethe15 sem tengist Ólympíumóti fatlaðra, Paralympics, en það hefst í Tokíó þann 24. ágúst. Íslendingar senda glæsilegan hóp á mótið sem nú er í æfingabúðum á mótsstaðnum.
Fréttir og myndbönd frá mótinu munu birtast reglulega á Facebook-síðu Íþróttasambands fatlaðra.
Á vefsíðu sambandsins fer Þórður Hjaltested, formaður Íþróttasambands fatlaðra, nokkrum orðum um átakið #wethe15 en í því felst meðal annars ákall 15% íbúa heimsins, sem eru fatlaðir, til hinna 85 prósentanna um að gefa gaum að getu þeirra til að vera virkir þegnar í samfélagi við aðra menn:
„Samstarfsaðilar um verkefnið skora á alla til þess að fylgjast með Paralympics leikunum sem hefjast í Tokyo 24. ágúst og standa til 5. september 2021 þar sem fatlað íþróttafólk tekur þátt í afreksíþróttum á jafnréttisgrundvelli. Yfirfærum þessa vitneskju á almennt viðhorf okkar til fatlaðra og getu þeirra til að stunda atvinnu og að lifa við jafnrétti og njóta virðingar í samfélagi þegna hvers lands.“
Spennandi Ólympíumót, Paralympics, er framundan og eru allir hvattir til að fylgjast með í sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum.