fbpx
Fimmtudagur 02.maí 2024
Eyjan

Jakob Frímann fann gamla Alþýðuflokkinn í Flokki fólksins

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 17. ágúst 2021 11:34

Jakob Frímann.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það álíta mig margir hafa verið einbeittan Samfylkingarmann en það væri nær að kalla mig Alþýðuflokksmann sem sér eftir gamla, góða Alþýðuflokknum. Hann var með rótgróinn kúltúr og félagslega skemmtilegt umhverfi,“ segir Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður, athafnamaður og þúsundþjalasmiður, í viðtali við DV.

Sú ákvörðun Jakobs að þiggja oddvitasæti hjá Flokki fólksins í Norðausturkjördæmi hefur vakið mikla athygli. Í hugum margra er hann tengdur Samfylkingunni en Jakob bendir á að hann hafi síðast verið virkur þar árið 2006 og ekki tekið þátt í neinu flokksstarfi síðan.

„Í miðborgarstjóratíð minni var ég að vinna með öllum flokkum og þurfti að vera hlutlaus og  réttsýnn,“ bendir Jakob á.

Jakob segist hafa hitt fyrir gamla Alþýðuflokkinn í Flokki fólksins:

„Þegar mér var boðið í kaffi hjá Flokki fólksins þá blöstu við mér sömu andlitin og unnu á gamla Alþýðuflokkskontórnum. Það var dálítið fallegt. Ég hafði misst Alþýðuflokkinn og ég hafði misst vin minn Tómas Tómasson bassaleikara, en þarna hitti ég fyrir annan Tómas Tómasson, Tomma í Tommaborgurum og Búllueiganda, en sá hinn sami hafði verið umboðsmaður okkar Tómasar,“ segir Jakob, en Tómas sem hann vísar til er einnig í oddvitasæti hjá Flokki fólksins.

Efla frið og eyða ófriði

Jakob vill koma fram sem sáttamiðlari og leiða fólk inn í gott samstarf með friðsamlegum samræðum: „Ég lærði það fyrir alllöngu að maður nær ekki árangri gagnvart fólki með því að gera að því hróp eða skammast, heldur bara tala kurteislega og nota skýrt mál og myndlíkingar. Það hefur að minnsta kosti reynst mér vel þegar ég hef reynt að ná fram því sem ég taldi vera eðlilegar breytingar, og viðmælendur mínir hafa þá endað á því að taka í sama streng, þegar málin voru rædd af yfirvegun.“

Jakob er ekki frá því að langur og fjölbreyttur tónlistarferill muni hjálpa honum í stjórnmálastarfinu:

„Að halda saman fjölmennum hópi ólíkra karaktera í ýmsum hljómsveitum, það hefur kennt mér sitthvað. Meginstefið er kannski að efla frið og eyða ófriði.“

Sinnuleysi gagnvart fátækt

Jakob telur að lög og reglur um tekjutengingar almannatrygginga séu óréttlæti sem þurfi að vinda ofan af:

„Ég gerði mér ekki grein fyrir því hversu mikil og ómöguleg ólög það eru sem sett voru hér í kjölfar hrunsins og tugþúsundir búa við í dag. Fólki er kannski skammtaður 260 þúsund kall á mánuði og ef það reynir að eiga fyrir meiru en bara húsaleigunni, hvort sem það er með vinnu eða lífeyrissparnaði, þá skal refsað jafnharðan. Þetta var neyðarbrauð á neyðartímum en á alls ekki við í dag hjá einni af auðugustu þjóðum heims.“

Samhliða þessum baráttumálum vill Jakob stuðla að sátt varðandi kvótakerfið og fleiri langvinn deilumál þjóðarinnar, sem og að virkja spennandi atvinnutækifæri í landinu:

„Hér eru ótrúlega spennandi atvinnutækifæri, til dæmis þegar fiskeldi er að verða jafnstórt kvótanum sem enn er rifist um og vonandi verður það ekki þrætuepli til eilífðarnóns. Þar þarf að ná skynsamlegri sátt með nýrri nálgun. Reyndar þarf að verða til sáttaferli í ýmsum málum sem dagað hefur uppi hjá þeim flokkum sem stýrt hafa hér málum undanfarinn áratug.“

En þyngsta áherslan er á það markmið að rétta hlut þeirra sem hafa farið varhluta af auðlegð í ríku landi, sem Ísland er. Stefna Flokks fólksins fellur honum vel í geð:

„Þetta er góður málstaður sem ég styð heilshugar ásamt öðrum lykilmálum sem þarna eru og eru öll tengd sama stefinu: Réttlæti og jöfnuði allra í þessu auðuga samfélagi. Allt of margir eru hornreka utan lífsgæðanna, utan sjálfsagðrar hlutdeildar í þeim. Ég held að það sé ekki einbeittur brotavilji sem þar ráði heldur ákveðið sinnuleysi, að hafa ekki kynnst nægilega vel af eigin raun þessu hlutskipti og séð lífið frá sjónarhóli þeirra sem búa við kröpp kjör. Alvöru velferðarsamfélag verður að byggjast á heilbrigðu samhengi milli verðmætasköpunar og mannúðar. Þar vil ég leggja mig allan fram.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Uppnám í breska Íhaldsflokknum – Þingmaður genginn í Verkamannaflokkinn sem hann segir verða að komast til valda til að bjarga heilbrigðiskerfinu

Uppnám í breska Íhaldsflokknum – Þingmaður genginn í Verkamannaflokkinn sem hann segir verða að komast til valda til að bjarga heilbrigðiskerfinu
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri Jakobsson: Galið að Seðlabankinn hækki vexti og auki með því verðbólguna

Snorri Jakobsson: Galið að Seðlabankinn hækki vexti og auki með því verðbólguna
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Hneyksli í Finnlandi – Þingmaður handtekinn eftir skotárás

Hneyksli í Finnlandi – Þingmaður handtekinn eftir skotárás
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Biden grínaðist með aldursumræðuna um forsetaframbjóðendurna – „Ég er í framboði gegn sex ára“

Biden grínaðist með aldursumræðuna um forsetaframbjóðendurna – „Ég er í framboði gegn sex ára“
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Jarðarfararblús

Óttar Guðmundsson skrifar: Jarðarfararblús
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass

Halla Hrund komin með forystu í nýrri skoðanakönnun – Skýtur Katrínu og Baldri ref fyrir rass
Eyjan
Fyrir 1 viku

Vilja gera Snæfellsjökul að forseta Íslands

Vilja gera Snæfellsjökul að forseta Íslands
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hallgrímur vandar Katrínu ekki kveðjurnar- „Er einhver munur á VG og XD?“

Hallgrímur vandar Katrínu ekki kveðjurnar- „Er einhver munur á VG og XD?“