Á laugardag var karlmaður stunginn með hníf á horni Hverfisgötu og Vitastígs. Kona hefur verið handtekin vegna málsins, en hún er grunuð um að hafa stungið manninn í lærið. Frá því greinir Vísir.
Fram kemur að ekki hafi verið fram á á gæsluvarðhald yfir konunni og henni sleppt úr haldi. Maðurinn hafi ekki verið illa slasaður, en að mun verr hefði getað farið.
Fréttablaðið fjallaði um málið um helgina, en þar var rætt við sjónarvott sem sagði:
„Ég var að ganga eftir Hverfisgötu og sá hóp af fólki að rífast á götunni. Einhver maður að reyna að tala við konu og aðrir menn voru að segja honum að láta hana í friði.“
Þá sagðist sjónarvotturinn hafa séð blóðugan mann, en honum blæddi úr höfði og því ekki víst að um sama mann sé að ræða.
„Ég kom við í sjoppu og á leiðinni til baka sá ég gamlan mann ræða við lögreglu. Hann var blóðugur á hnakkanum og það virtist leka blóð úr höfðinu á honum niður í peysuna hans. Þetta virtist vera djúpur skurður og hann virtist ringlaður.“