Embætti ríkislögreglustjóra vill meina að lögregla hafi ekki beitt ofbeldi við handtöku á hælisleitendum síðastliðinn þriðjudag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embættinu. Þar kemur fram að myndefni af atvikinu hafi verið skoðað og telur lögregla ekki að um óþarfa eða óhóflega valdbeitingu hafi verið að ræða.
Einnig kemur fram að einstaklingarnir sem voru handteknir hafi verið vísað úr landi.
Lesa nánar: Annar hælisleitandinn endaði á sjúkrahúsi eftir handtöku lögreglu
Fjölmiðlar hafa fjallað um málið síðustu daga, en greint hefu verið frá því að hælisleitandi hafi endað á sjúkrahúsi eftir handtökunna, og þá var lögregla sökuð um að lemja manninn.
Yfirlýsing lögreglu er eftirfarandi:
„Embætti ríkislögreglustjóra vísar á bug ásökunum um að lögregla hafi beitt ofbeldi við handtöku síðastliðinn þriðjudag, eins og hefur verið haldið fram af viðmælendum í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Farið hefur fram frumskoðun á myndefni af atvikinu af hálfu embættisins og bendir hún ekki til að um óþarfa eða óhóflega valdbeitingu hafi verið að ræða, miðað við þær aðstæður sem sköpuðust á vettvangi.
Líkt og fram kom í fréttatilkynningu embættisins vegna málsins í gær þá grípur lögregla aðeins til valdbeitingar þegar brýna nauðsyn krefur. Ákvörðun um slíkt er ávallt tekin samkvæmt mati stjórnanda á vettvangi m.a. með það að markmiði að tryggja öryggi hins handtekna eða annarra.
Í ljósi fjölmargra fyrirspurna þá getur embættið staðfest að einstaklingarnir sem um ræðir eru farnir af landi brott í samræmi við ákvörðun viðeigandi yfirvalda um frávísun þeirra.“