Tveimur flugumferðarstjórum hefur verið sagt upp störfum hjá dótturfélagi Isavia, Isavia ANS, vegna gruns um kynferðisofbeldi gagnvart rúmlega tvítugum nemanda í flugumferðarstjórn. Vísir.is greinir frá þessu.
Í fréttinni kemur fram að samkvæmt heimildum fréttastofu hafi mennirnir tveir beitt unga konu kynferðisofbeldi eftir bjórkvöld hjá stéttarfélagi flugumferðarstjóra síðasta sumar og konan hafi í kjölfarið leita á bráðamóttöku Landspítalans.
RUV fjallar einnig um málið og þar segir að mennirnir hafi verið kærðir fyrir nauðgun.
Þá greinir Vísir.is frá því að rannsókn lögreglu sé lokið og málið hafi verið sent til héraðssaksóknara þar sem það hafi verið fellt niður vegna skorts á sönnunargögnum. Þeirri niðurstöðu hafi verið áfrýjað og málið nú á borði ríkissaksóknara.