Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur gefið út ákæru á hendur þrítugum manni fyrir röð afbrota á mánaðartímabili í mars og apríl árið 2020 sem beindust að mestu leyti gegn fyrrverandi sambýliskonu mannsins og nýjum ástmanni hennar. Í ákærunni, sem er birt í Lögbirtingablaðinu í dag, er manninum gefið að sök að hafa beitt þessa tvo einstaklinga ofbeldi auk þess að rjúfa nálgunarbann gegn þeim.
Þá kemur fram að maðurinn var tekinn þrisvar fyrir meintan hraðakstur sama kvöldið, 16. mars 2020. Fyrst á Vesturlandsvegi á móts við Fiskilæk, síðar rétt áður en hann kom að Hvalfjarðargöngunum og stuttu síðar við Árvelli á Kjalarnesi.
Þremur dögum síðar, þann 19. mars, veittist hinn meinti gerandi að nýjum ástmanni fyrrum sambýliskonu sinnar fyrir framan heimili hennar á Húsavík að kvöldi til. Á hann að hafa slegið viðkomandi í hnakkann og síðan veitt honum tvö högg á hægra gagnauga svo bólga hlaust af.
Á sama sólahringstímabili er maðurinn sakaður um aðra líkamsárás og húsbrot. Á hann að hafa mætt óboðinn á heimili fyrrverandi sambýliskonu sinnar og neitaði að fara þegar hún bað hann um að yfirgefa heimilið. Degi síðar er maðurinn sakaður um að hafa veist að sambýliskonu sinni á heimili hennar. Hann á að hafa gripið fast um vinstri handlegg hennar og tekið hana hálstaki þegar hún bað hann um að yfirgefa heimikið. Afleiðingar þessa fyrir brotaþola voru að hún hlaut marbletti undir kjálkabörðum báðum megin og á vinstri fram- og upphandlegg.
Þann 22.mars var maðurinn settur í nálgunarbann gagnvart fyrrum sambýliskonu sinni. Honum er gefið að sök að hafa rofið það nálgunarbann með því að koma óboðinn að heimili hennar í tvígang þann 23. mars og 28. mars auk þess sem á sama tveggja vikna tímabili hringdi hann 108 skipti í símanúmer fyrrum sambýliskonu sinnar, sendi 327 smáskilaboð og 11 myndskilaboð.
Aðfaranótt laugardagsins 4.apríl á síðan að hafa soðið upp úr en þá er manninum gefa að sök að hafa brotið upp opnanlegt fag í kjallaraglugga og farið í heimildarleysi inn á heimili sinnar fyrrverandi og brotið þar með nálgunarbann. Á hann síðan hafa ráðist til til atlögu að ástmanni sinnar fyrrverandi þar sem parið lá saman sofandi í rúmi sínu. Á hann að hafa slegið ástmanninn ítrekuðum hnefahöggum í andlit, höfuð og ofanverðan líkama. Þegar fórnarlambið reyndi að komast undan atlögunni á hann að hafa verið sleginn í bakið, aftanverðan háls og höfuð auk sparks í vinstri upphandleg.
Afleiðingar árasarinnar fyrir ástmanninn nýja voru þær að hann hlaut skurð fyrir ofan hægri augabrún, og v-laga sár ofan á höfði, skurð aftan við vinstra eyra sem var einnig marið, mar og bólgu milli hryggjar og hægra herðablaðs og sár á fingrum vinstri handar.
Fjórum dögum síðar, þann 8.apríl, á maðurinn að hafa haldið áfram að áreita nýja ástmanninn þrátt fyrir að hafa verið settur í nálgunarbann gegn honum sama dag. Á hann að hafa notað þriðja aðila til að setja sig í samband við ástmanninn og komið þeim skilaboðum áleiðis að viðkomandi skyldi passa sig og ef hann myndi hitta fyrrverandi sambýliskonu sína aftur eða vera með henni þá myndi maðurinn „hitta hann fljótlega“. Að auki sagðist hann vilja ræða við ástmanninn á „normal“ hátt en skilaboðin urðu til þess að ástmaðurinn óttaðist um líf sitt og velferð.
Níu dögum síðar var maðurinn svo að endingu stöðvaður á bíl við Borgarnes þar sem hann er talinn hafa verið undir áhrifum amfetamíns.
Í málinu fer ástmaðurinn fram á að fá tvær milljónir króna í bætur auk þess sem fyrrum sambýliskonan fer fram á 1,2 milljónir króna í bætur.