Um tíuleytið voru björgunarsveitir í Árnessýslu kallaðar út vegna mannlauss báts á Álftavatni rétt ofan við Þrastarlund. Óttast er að þar hafi bátsverjar fallið frá borði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu sem send var fjölmiðlum.
Munu björgunarsveitir leita á svæðinu auk þess sem reynt verður hafa uppi á eiganda bátsins.
Á sjötta tug björgunarsveitarmanna kemur að leitinni en ekki er útilokað að báturinn hafi slitnað frá landi.
Uppfært klukkan 03.18
Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að leit hafi verið hætt á Álftavatni en engin ummerki fundust um að fólk hefði verið í bátnum. Einnig náðist samband við eiganda bátsins og er ekki talið að einhver á hans vegum hafi verið í bátnum.